Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Klúður við útboð á hleðslustöðvum reynist borginni dýrt

16.06.2021 - 10:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kærunefnd útboðsmála hefur lagt fjögurra milljóna króna stjórnvaldssekt á Reykjavíkurborg og gert henni að bjóða út að nýju uppsetningu og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla. Þá telur kærunefndin að Reykjavíkurborg sé skaðabótaskyld gagnvart Ísorku og er auk þess gert að greiða fyrirtækinu allan málskostnað, tvær milljónir króna.

Reykjavíkurborg bauð út uppsetningu og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla í Reykjavík.

Sá sem hreppti hnossið átti að leggja til bílastæði á ákveðnum stöðum og mátti fyrir vikið rukka þá sem notuðu hleðslustöðvarnar til að hlaða rafbíla sína. Alls átti viðkomandi að fá aðgang að 27 staðsetningum þar sem hægt yrði að setja upp 72 hleðslustöðvar. Samningurinn með öllum framkvæmdum var metinn á rúman hálfan milljarð.

Orka náttúrunnar varð fyrir valinu. Ísorka kærði útboðið og taldi það í skötulíki. Til að mynda hefði lausn Orku náttúrunnar ekki verið í samræmi við reglugerð auk þess sem Samkeppniseftirlitið hefði hafið rannsókn á starfsemi fyrirtækisins á markaði fyrir hleðslur, hleðslustöðvar og rafmagn vegna brota á samkeppnislögum. Rannsóknina má rekja til kvörtunar Ísorku.

Þá benti Ísorka á að Orka náttúrunnar væri dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur sem væri í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar. Það hefði því átt að útiloka fyrirtækið frá útboðinu enda hefðu starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur lesið yfir útboðsgögn. Ísorka taldi líka að borgin væri að gera sérleyfissamning og því hefði átt að birta tilkynningu um útboðið á evrópska efnahagssvæðinu.

Kærunefndin tók undir það síðastnefnda og taldi að borgin hefði átt að birta tilkynningu um fyrirhugaða veitingu sérleyfis á EES-svæðinu. Borgin hefði ekki gert það og því væri óhjákvæmilegt að fella samninginn við Orku náttúrunnar  úr gildi. 

Reykjavíkurborg var því gert að bjóða út innkaupin að nýju og var talin bótaskyld gagnvart Ísorku vegna þátttöku fyrirtækisins í útboðinu. Þá var borginni jafnframt gert að greiða 4 milljónir króna í stjórnvaldssekt og þarf auk þess að greiða allan málskostnað Ísorku eða tvær milljónir króna.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV