Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hópsmit virðist komið upp í Nuuk á Grænlandi

16.06.2021 - 00:20
Götumyndir frá höfuðstað Grænlands Nuuk, snjór á götum
 Mynd: Danmarks Radio
Landlæknir Grænlands staðfestir að fimm ný kórónuveirusmit eru komin upp í Nuuk, höfuðstað landsins. Því er ákveðið að grípa til harðra ráðstafana til að stöðva útbreiðslu smita, þar á meðal er allt flug til og frá bænum bannað.

Enn liggur ekki fyrir hve lengi bannið varir. Talið er að uppruna hluta smitanna megi rekja til fermingarveislu í bænum á laugardaginn var.

Öllum veislugestum var gert að fara í skimun í dag, það eru um 200 manns. Vöggustofu í Nuuk var einnig lokað í dag að beiðni landlæknsi vegna þess að foreldri eins barnsins er greint með COVID-19.

Lokað verður þar til smitrakning hefur varpað frekara ljósi á uppruna smita en haft verður samband við foreldra allra barna á vöggustofunni varðandi skimun.