Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fyrsta skóflustungan að fyrstu Krónuverslun Norðurlands

16.06.2021 - 09:00
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Tekin hefur verið fyrsta skóflustungan að nýrri verslun Krónunnar við Tryggvabraut á Akureyri og fara framkvæmdir strax af stað. Gert er ráð fyrir að verslunin verði opnuð haustið 2022.

Langt ferli

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að forsvarsmenn verslunarinnar hafi síðan árið 2008 stefnt að því að opna Krónuverslun á Akureyri. „Verslunin verður sú fyrsta á Norðurlandi og verður hún stór og glæsileg og ein af stærstu verslunum Krónunnar eða um 2000 fermetrar.“

Framkvæmdir fara strax af stað og Ásta býst við að hægt verði að opna verslunina seinni hluta næsta árs.

Verslunin rís á svo svokölluðum Hvannavallareit við Tryggvabraut á Akureyri. Það tók langan tíma að finna heppilega lóð sem var laus til nýbyggingar. Í lok síðasta árs samþykkti bæjarstjórn deiliskipulag fyrir svæðið á reitnum og lauk þá áralangri bið Krónunnar eftir lóð.

Ásta segist ekki finna fyrir öðru en að Akureyringar og nærsveitamenn fagni komu Krónunnar í bæinn. Hún telur að með byggingunni verði svæðinu lyft enn frekar upp og þeirri starfsemi sem er þar fyrir.

Heilbrigð samkeppni komi öllum vel.

„Fólk á Norðurlandi þekkir vöruúrvalið á höfuðborgarsvæðinu og vill auðvitað fá það hingað til sín líka. Þannig að koma Krónunnar norður er góð fyrir samkeppnina og kemur öllum landshlutanum vel.“

Ásta segist hafa fundið fyrir ákalli að norðan um að fá Krónuna þangað. Það sé hluti af heilbrigðri samkeppni að hafa fleiri verslanir til að vöruúrval og verð haldist gott fyrir Akureyringa og nærsveitunga.