Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Frábær þátttaka segir stjórnarformaður Bankasýslunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Kikkó - RÚV
Íslenska ríkið fær rúma 55 milljarða króna fyrir sölu á 35 prósenta hlut í Íslandsbanka í útboðinu sem lauk í gær. Margföld umframeftirspurn var í útboðinu eða 486 milljarðar króna.

Ríkið á, eftir útboðið, 65 prósent hlutafjár, erlendir fjárfestar 11 prósent og einstaklingar og stærri innlendir fjárfestar 24 prósent.

„Þetta er auðvitað frábær þátttaka,“ segir Lárus Blöndal formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins.

„Við erum að tala hérna um um það bil 24 þúsund nýja hluthafa og mesti fjöldi hluthafa í skráðu félagi á Íslandi. Þannig að það segir sitthvað um hvernig útboðið hefur tekist. En síðan má auðvitað segja það að við erum auðvitað mjög ánægð að fá mjög öfluga bæði innlenda og ekki síst þessa erlendu sem eru margir hverjir mjög virtir og traustir fjárfestar sem að menn líta til með mikilli virðingu. Og ég held að það sé mikill akkur í að fá þá hérna inn á íslenskan hlutabréfamarkað.“

Birta á lista yfir stærstu hluthafanna í dag.  Helstu niðurstöður útboðsins voru birtar á Nasdaq kauphöllinni í nótt.