Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Dólgslæti á slysadeild og bílar barðir utan

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Lögregla var kölluð á slysadeildina í Fossvogi í nótt vegna manns sem lét öllum illum látum eins og það er orðað í dagbók lögreglu. Hann reyndist í annarlegu ástandi og var því handtekinn.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til skömmu fyrir miðnætti til að flytja konu sem féll á göngu við Flekkudalsfoss á Landspítalann.

Samkvæmt upplýsingum varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru björgunarsveitir, lögregla og og slökkvilið kölluð til um hálf tólf. Ákveðið var að leita aðstoðar gæslunnar við að koma konunni undir læknishendur

Í gærkvöldi kallaði starfsfólk hótels eftir aðstoð lögreglu vegna gesta sem höfðu verið til vandræða. Þeir yfirgáfu hótelið eftir tiltal lögreglumanna.

Síðdegis í gær fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynningu um að maður væri að berja í mannlausa bíla í miðborginni. Hann var horfinn á braut þegar lögreglumenn komu á vettvang og fannst ekki þrátt fyrir leit.

Í gærkvöldi var tilkynnt um olíumengun í Hafnarfjarðarhöfn en hafnarstarfsmenn og slökkvilið hófust þegar handa við hreinsun. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV