Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bæta þremur hundategundum við bannlista

16.06.2021 - 07:57
Cane Corso hundur, stefnt er að tegundin fari á bannlista.
 Mynd: Claudio Domiziani
Þrjár hundategundir munu bætast við á bannlista þann sem finna má í reglugerð nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta. Fyrir eru á listanum fjórar aðrar hundategundir sem óheimilt er að flytja hingað til lands. Í samráðsgátt stjórnvalda liggja nú fyrir drög að reglugerð um breytingu á áðurnefndri reglugerð um innflutning hunda og katta. Drögin voru birt í samráðsgáttinni í dag og er umsagnarfrestur til og með 29. júní næstkomandi.

Verði af fyrirhuguðum breytingum verða gerðar fjórar breytingar á núgildandi reglugerð. Þær eru sagðar byggja á reynslu af núverandi regluverki og lúta að ákvæðum sem ekki hafa skilað tilskildum árangri.

Vilja forðast misskilning um bann á tegundum

Fyrsta breytingartillagan snýr að orðalagi í 1. tl. f. liðar 14. greinar reglugerðarinnar þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að flytja hingað til lands hunda af tegundunum „Pit Bull Terrier“ og „Staffordshire Bull Terrier“. Lagt er til að bæta við bannlistann heitunum „American Staffordshire Terrier“ og „American Bulldog“, um sé að ræða sömu tegundina og einungis sé um ræða mismunandi afbrigði. Mikilvægt sé að ekki leiki vafi á um að bannið taki til allra tegundanna vegna þeirrar hættu sem getur stafað af þeim.

Þá er einnig lagt til að að þremur nýjum hundategundum verði bætt við áðurnefndan f. lið 14. greinar reglugerðarinnar. Umsóknir hafi borist um innflutning á tegundunum þremur sem um ræðir en þeim hafi verið hafnað á grundvelli 5. tl. f. liðar 14. greinarinnar. Þar segir að óheimilt sé að flytja til landsins „aðrar hundategundir eða blendinga, samkvæmt rökstuddri ákvörðun Matvælastofnunar í hverju tilfelli.“

Tegundir sem þykja henta vel til veiða á stórum dýrum

Tegundirnar, „Cane Corso“, „Presa Canario“ og „Boerboel“-hundar, þykja búa yfir eiginleikum sem henta vel til veiða á stórum dýrum, sem varðhundar og til notkunar í dýraati. Geðslag og líkamsbyggð þeirra geri það að verkum að sérstök kunnátta og aðgát sé nauðsynleg í umgengni við hundana, „annars sé hætt við því að árásargirni komi fram sem haft getur alvarlegar afleiðingar fyrir menn og önnur dýr.“

Þá er lagt til að afnema kröfu um opinbera áritun heilbrigðis- og upprunavottorðs. Útvegun á slíkri áritun hafi reynst íþyngjandi og valdið töfum á skilum vottorðanna til Matvælastofnunar.

Fjórða breytingin sem lögð er til snýr að ákvæði um meðhöndlun gegn útvortis sníkjudýrum með sníkjudýralyfjum. Nú sé gerð krafa um að hundar og kettir séu meðhöndlaðir tvisvar sinnum en notuð séu langverkandi sníkjudýralyf.

Lagt er til að hafi langvarandi lyf verið notuð í fyrri meðhöndlun dýrs skuli sú meðhöndlun einnig teljast sem seinni meðhöndlun, að því gefnu að verkun lyfsins sé enn í gildi á innflutningsdegi hundar eða kattar.

 

Andri Magnús Eysteinsson