Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Alltaf betra að hittast augliti til auglitis“

16.06.2021 - 12:58
Mynd: EPA-EFE / SPUTNIK POOL POOL
Leiðtogafundur forseta Bandaríkjanna og Rússlands er hafin í Genf í Sviss. Joe Biden og Vladimír Pútin hafa báðir sagt að samskipti ríkjanna séu verri nú en síðustu áratugi. Þeir ræddust stuttlega við fyrir framan fjölmiðla í byrjun fundar.

Leiðtogafundurinn sem mörg hafa beðið eftir er hafinn í Genf.  Hann hófst klukkan um hádegisbil á La Grange-óðalssetrinu. Pútín mætti örlítið á undan Biden, Guy Parmelin forseti Sviss tók á móti þeim hvorum í sínu lagi og svo komu þeir allir þrír saman út á tröppurnar. Það var sá Parmelin sem sá um að tala. Hann óskaði þess að viðræðurnar yrðu friðsamar og árangursríkar. Þeir Biden og Pútín sögðu lítið, stóðu hjá heldur alvarlegir á svip en tókust svo í hendur og gengu aftur inn til fundar. Þá settust þeir niður ásamt utanríkisráðherrum sínum á opnum fundi. 

Pútín þakkaði Biden fyrir frumkvæðið að fundinum og sagði að það væri um margt og ræða og hann vonaðist til að viðræðurnar verði afkastamiklar. Biden sat og kinkaði kolli, sýndi ekki mikil svipbrigði en þakkaði Pútín fyrir og sagði að sér fyndist alltaf betra að ræða málin augliti til auglitis. Fram undan eru svo fundarhöld fyrir lokuðum dyrum í dag. 

Ekki búist við breytingum

Flestir búast við þýðu að fundinum loknum en báðir forsetarnir hafa lýst því að samband ríkjanna sé verra nú en það hefur verið síðustu áratugi. Það er þó ekki víst að breytingin verði mikil. Það er þó talið að samskiptin verði aukin á næstu vikum og mánuðum, en undanfarna mánuði hafa Bandaríkin ekki verið með sendiherra í Moskvu, og rússneski sendiherrann var kallaður heim frá Washington eftir að Biden kallaði Pútín morðingja. Stjórnvöld í Moskvu sögðu samband ríkjanna komin í öngstræti en bæði hafa þau sett á refsiaðgerðir, síðast bandaríkjastjórn til að bregðast við tölvuárásum, sem bandarísk stjórnvöld saka Rússa um að skipuleggja eða stýra. Ekki er búist við miklum breytingum þar, en árangur gæti náðst í afvopnunarmálum. 

Fundarstaðurinn engin tilviljun

Fundarstaðurinn er glæsilegur, Villa La Grange sem stendur við Genfarvatn. Þetta er hálfgerð höll en hún var reist á nítjándu öld og staðsetningin þykir einkar hentug fyrir fund af þessu tagi, sér í lagi þegar kemur að öryggisgæslu því há tré umlykja höllina. Það er engin tilviljun að fundur þeirra Pútíns og Bidens er haldinn í Genf í Sviss. Borgin hefur áður reynst vel þegar kemur að fundahaldi stórveldanna er þeir Ronald Reagan og Mikhail Gorbatsjov hittust þar í nóvember 1985. Þar var línan lögð að bættum samskiptum eftir Kaldastríðið og sú vinna hélt áfram á leiðtogafundinum í Höfða í október 1986. Þar var eitt helsta þrætueplið takmörkun á vígbúnaði, en þá stóð vopnakapphlaupið sem hæst. Það stendur enn og verður eitt af helstu umræðuefnunum á fundi Bidens og Pútíns í dag.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV