Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ættum við að leyfa hunda á vinnustöðum?

16.06.2021 - 10:46
Mynd: RÚV / RÚV
Mikil aukning varð á eftirspurn eftir gæludýrum í kórónuveirufaraldrinum. Svo mikil var hún eftir köttum að Kattholt annaði vart eftirspurn og fengu flestir kettir nýtt heimili. Nú þegar flestir landsmenn eru byrjaðir að mæta aftur á vinnustaði má velta fyrir sér hvort hundar ættu að fá að fylgja eigendum sínum í vinnuna.

Þórkatla Aðalsteinsdóttir, sálfræðingur og ráðgjafi í mannauðsmálum hjá Lífi og sál, var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun og deildi sínum hugleiðingum um málið. 

„Sálræna öryggið er okkur mikilvægt og því var ógnað í faraldrinum. Við þurftum að vinna heima og þessi vá hékk alltaf yfir. Það getur því verið hollt og sálrænt að fá sér hund. Hann veitir gleði og er vinur, “ segir Þórkatla. Það sé því eðlilegt þegar landsmenn byrja að mæta til vinnu á ný að spurningin vakni um hvað eigi nú að gera við hundinn sem hefur verið tryggur samstarfsfélagi í faraldrinum. 

Aðspurð hvort hundar geti bætt vinnustaði segist Þórkatla halda að þeir geti létt stemninguna og skapað tengsl milli vinnufélaga. „Þeir geta brotið upp á andrúmsloftið á skemmtilegan máta en það þarf auðvitað að huga að ýmsu eins og ofnæmi fólks eða ótta, “ segir Þórkatla. Svo henti ólíkum vinnustöðum misvel að leyfa hunda, þetta sé eitthvað sem þurfi að meta á hverjum stað fyrir sig. 

Margir óöruggir að mæta aftur

Þórkatla bætir jafnframt við að margir finni fyrir óöryggi að mæta aftur til vinnu. Þá vakni upp spurningar um hvort maður sé enn hluti af hópnum eða hafi jafnvel orðið utanveltu. Það taki á að byrja aftur í föstum ramma en fólk sé líka margt orðið hungrað eftir tengslum við vinnufélagana. Það sé því algengt að fólk upplifi blendnar tilfinningar þegar starfsemi færist meira frá heimilinu inn á vinnustaðina á ný.