Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfirskattanefnd staðfestir að Bugles sé „brauðvara“

15.06.2021 - 10:16
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons/ Geoff - RÚV
Yfirskattanefnd hefur staðfest ákvörðun tollgæslustjóra um að hið vinsæla snakk Bugles Original skuli flokkað undir vöruliðnum brauðvara. Það eru vörur úr hvers konar deigi sem steiktar eru í olíu. Nefndin felldi hins vegar úr gildi 50 prósenta álag vegna rangrar tollflokkunar á snakkinu frá 2017-2019.

Málið kom upp í apríl í fyrra þegar tollgæslustjóri tilkynnti innflytjanda að endurákvarða þyrfti aðflutningsgjöld vegna rangrar tollflokkunar á nokkrum matvörum sem hann hafði flutt inn á árunum 2017-2019. 

Bugles Original var þar á meðal en snakkið var tollskráð sem matvæli úr belgdu eða steiktu korni.

Tollgæslustjóri taldi að Bugles ætti að falla undir vörulið 1905 þar sem eru brauð, sætabrauð, kökur, kex og aðrar brauðvörur. 

Innflytjandinn mótmælti þessu og sagði snakkið eiga að heyra undir þann hlut sem helst einkenndi vöruna. Í tilviki Bugles væri það korn eða maísmjöl.  Vísaði hann meðal annars til úrskurðar ríkistollanefndar um annað vinsælt snakk, Pringles, hvað þetta varðaði.

Tollgæslustjóri var harður á því að Bugles væri brauðvara enda væri það bakað úr maísmjöli. Það væri raunar grundvallaratriði.

Í umsögn sinni til yfirskattanefnd viðurkenndi tollgæslustjóri að við fyrstu sýn væri vissulega hægt að flokka Bugles sem matvæli úr belgdu eða steiktu korni en reyndin væri önnur þegar betur væri að gáð. Í þeim flokki væri nefnilega aðallega matur sem notaður væri í morgunmat en í brauðvöru-flokknum væru matvæli þar sem deig einkenndi helst vöruna. Og það ætti við um Bugles Original.

Yfirskattanefnd féllst á þessi rök tollgæslustjóra og taldi rétt að flokka snakkið sem brauðvöru. Í þeim vöruflokki mætti finna stökk, krydduð eða sölt matvæli gerð úr deigi og steikt í grænmetisolíu. 

Yfirskattanefnd felldi hins vegar niður ákvörðun um álag og benti á að tollgæslustjóri hefði sjálfur sagt að það blasti ekki beint við hvernig ætti að tollflokka Bugles. Þá væri ekki hægt að horfa fram hjá því að ákveðin líkindi væru með Pringles og Bugles og að tollgæslustjóri hefði sjálfur lýst þeirri skoðun sinni að ákvörðun ríkistollanefndar varðandi Pringles væri í andstöðu við niðurstöðu tollskrárnefndar Alþjóðatollstofnunarinnar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV