Viðurkenndi vanmátt sinn eftir erfitt fæðingarþunglyndi

Mynd:  / 

Viðurkenndi vanmátt sinn eftir erfitt fæðingarþunglyndi

15.06.2021 - 13:08

Höfundar

Margrét Erla Maack, fjölmiðlakona og dansari, glímdi við alvarlegt þunglyndi eftir fæðingu dóttur sinnar. „Ég var komin í næstum því sjálfsvígshugsanir. Ég var komin í að líf barnsins míns og mannsins míns yrði betra ef ég myndi láta mig hverfa.“

Margrét Erla Maack eignaðist sitt fyrsta barn í október 2019. Meðgangan gat ekki gengið betur og fæðingin, þótt erfið væri, var einnig góð. Hún öðlaðist nýja trú á sjálfa sig og hvers hún væri megnug. Brjóstagjöfin gekk hins vegar illa og leiðin lá í djúpan dal. Hún segir frá afar erfiðu fæðingarþunglyndi sem hún stríddi við í rúmt ár áður en hún leitaði sér hjálpar í viðtali við Brynju Þorgeirsdóttur í Segðu mér á Rás 1.

„Það kom mér svo á óvart. Ég var ekkert undirbúin fyrir það. Ég hef ekki fundið fyrir þunglyndi áður og af því að meðgangan gekk svo vel þá gerði mér ekki grein fyrir því að nokkuð gæti verið eða orðið að.“

Þegar loksins byrjaði að rofa til skall faraldurinn á og við tóku miklar fjárhagsáhyggjur. Margrét Erla hefur getið sér gott orð sem danskennari og skemmtikraftur og allt sem hún starfaði við og færði henni ánægju var bannað. 

„Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað ég speglaði mig mikið í vinnunni minni fyrr en það mátti ekki vinna lengur. Peningarnir hurfu fyrir augunum á manni, maður var að koma út úr mjög takmörkuðu fæðingarorlofi og gat ekki heldur framfleytt sér.“

Ofboðsleg depurð og vondar tilfinningar í garð dóttur sinnar

Í framhaldinu gripu hana erfiðar tilfinningar og hugsanir. „Mér fannst ég vera slæm móðir og gæti ekki búið dóttur minni öryggi. Fjárhagsáhyggjurnar toguðu mig aftur niður,“ segir hún. „Þetta var ofboðsleg depurð. Enginn framkvæmdavilji og lítil þolinmæði gagnvart barninu mínu, sem gat enga björg sér veitt. Ég fékk mjög vondar tilfinningar í garð hennar sem var ofboðslega erfitt líka. Það er spírall sem er erfitt að ná sér út úr.“

Margrét Erla hafði aldrei upplifað þunglyndi fram að þessu og átti erfitt með að viðurkenna það fyrir sjálfri sér. Hún hefði hingað til alltaf lent á fótunum og taldi sjálfri sér trú um að hún gæti alltaf látið sér líða betur. Hún gat ekki ímyndað sér hvað þetta yrði erfitt og hversu víðtæk áhrif þunglyndi gæti haft á eigið líf, frá hinu minnsta til hins stærsta. „Það sem áður veitti þér gleði gerir það ekki, nema kannski rétt á meðan. Þú nærð ekki að safna neinum gleðiforða, þú nærð ekki að safna í gleðibankann.“

Trúði að líf dóttur hennar og barnsföður yrði betra án hennar

Það leið rúmt ár þar til hún horfðist í augu við vandann, viðurkenndi vanmátt sinn og leitaði hjálpar. „Ég var komin í næstum því sjálfsvígshugsanir. Ég var komin í að líf barnsins míns og mannsins míns yrði betra ef ég myndi láta mig hverfa. Ef ég myndi bara fara fara. Flytja til útlanda og láta mig hverfa og þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mér. Þegar ég opna mig um það segir maðurinn minn mér að þetta væri ekki í lagi. Svo tala ég um þetta í ungbarnaverndinni og þá var farið í það að setja mig á lyf og prófa.“

Eftir aðeins þrjá daga á lyfjakúr fann hún sig aftur. Skömmu síðar fékk hún fasta vinnu, sem breytti einnig miklu. „Þá kemur rútína. Maður er barn líka og þarf sína rútínu og sitt öryggi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Úr einkasafni - .
Margrét Erla Maack ásamt barnsföður sínum, Tómasi Steindórssyni.

Hún er þakklát fyrir stuðninginn sem barnsfaðir hennar, Tómas Steindórsson, sýndi henni. „Ég hef oft sagt við hann: takk fyrir að vera hérna enn þá því ég hefði farið frá mér. Það er skýrt í mínum huga, ég hefði ekki getað þetta.“

Símtal var lokahnykkur í bata

Nú eru hjólin aftur farin að snúast eftir erfitt tímabil, dregið hefur úr samkomutakmörkunum og tíðindi af góðum gangi bólusetninga hjálpa. „Mér finnst svo gaman í vinnunni minni. Ég lifi á því að vera í kringum fólk og ekki bara fjárhagslega heldur líka bara geðlega. Það sem hefur alltaf verið akkeri mitt í Kramhúsinu, þar sem ég kenni, að hitta fólk og hreyfa mig. Mér finnst svo gaman að skapa. Ég lifi á því.“

Lokahnykkurinn í bata Margrétar var þegar hún fékk símtal frá Sigmundi Erni og boðið starf á Hringbraut við dagskrárgerð í sjónvarpi. „Að fá fasta vinnu. Þá hugsaði ég: já, ég er einhvers virði. Það er reyndar eitthvað sem ég þarf að vinna í, að vinna í sjálfsvirði mínu ótengt vinnunni minni.“

Þegar hún horfir til næstu ára í þessu nýja hlutverki, sem móðir og uppalandi, vonast hún til að finna jafnvægið. „Að geta verið til staðar fyrir barnið mitt og ekkert komi fyrir. Að við náum að tækla lífið sem fjölskylda.“

Brynja Þorgeirsdóttir ræddi við Margréti Erlu Maack í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Það er fólkið sem þú vilt ekki byrja með“

Leiklist

„Þú ert að sjá alls konar kroppa“