Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Neytendastofa tekur leikkonu til bæna fyrir auglýsingar

15.06.2021 - 11:30
Neytendastofa lógó
 Mynd: RÚV
Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að leikkonan Kristín Pétursdóttir hafi brotið gegn neytendalögum með umfjöllun sinni um sjö fyrirtæki á Instagram-síðu sinni. Kristín sagðist ekki skilgreina sig sem áhrifavald en hún notaði Instagram til þess að koma sér á framfæri auk þess að sýna frá sínu daglega lífi.

Neytendastofa hefur á síðustu árum aukið eftirlit sitt með duldum auglýsingum á samfélagsmiðlum. Áhrifavaldar eins og Sólrún Diego, Tinna Alavis og Lína Birgitta eru meðal þeirra sem hafa fengið skammir í hattinn sem og rapparinn Emmsjé Gauti.

Í ákvörðun Neytendastofu kemur að stofnuninni hefði borist ábendingar um að á Instagram-síðu Kristínar væri að finna umfjöllun um margvíslegar vörur og þjónustu. Þær væru ekki merktar sem auglýsingar eða greint frá því með skýrum hætti að þær væru gerðar í viðskiptalegum tilgangi. Neytendastofa óskaði eftir frekari upplýsingum á þessum færslum.

Kristín svaraði stofnuninni í mars. Hún sagðist alltaf taka fram þegar hún fengi greitt fyrir samstarf við fyrirtæki. Hún sagðist ekki skilgreina sig sem áhrifavald heldur væri hún leikkona sem notaði Instagram til að koma sér á framfæri og sýna frá daglegu lífi sínu.  

Kristín benti jafnframt á að Ísland væri lítið land, hún ætti fjölskyldu og vini sem ættu fyrirtæki sem gæfu síðan afslátt. Komið hefði fyrir að hún merkti jafnvel fyrirtæki af frændsemi. Auðvitað yrðu stundum mannleg mistök í flýti og lofaði hún að standa sig betur í því að merkja efni á síðu sinni. 

Kristín rekur síðan hvernig hún fékk þær vörur sem nefndar voru í bréfi Neytendastofu. Þetta voru meðal annars afsláttur eða persónulegar gjafir frá Húrra í Reykjavík, take-away-máltíðir frá Yuzu burger og Reykjavík Meat. Þá upplýsti hún að mæðgurnar í Blómahönnun hefðu komið henni tvisvar til þrisvar á óvart með blómvendi heim til hennar án þess að biðja um nokkuð í staðinn.

Neytendastofa taldi engu að síður að leikkonan hefði brotið neytendalög með umfjöllun sinni um sjö fyrirtæki og var henni bannað að viðhafa slíka viðskiptahætti aftur. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV