Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mannabein fundust í fjörunni í Húnavatnssýslu

15.06.2021 - 10:00
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
„Við teljum þetta vera handlegg en eigum eftir að fá það staðfest,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra. Ábúandi á Skaga í Húnavatnssýslu fann í gærkvöld eitthvað sem talið er vera mannabein. Stefán segir að þau verði send suður til kennslanefndar ríkislögreglustjóra til að fá það staðfest.

Hann segir að björgunarsveitarmenn hafi verið kallaðir út til að leita umhverfis staðinn þar sem beinin fundust í fjörunni. Þeir hafi fundið eitthvað meira en Stefán telur ólíklegt að það hafi líka verið mannabein. Engu að síður verði það sent til Reykjavíkur til frekari rannsókna. Hann gat ekki veitt frekari upplýsingar. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV