Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ljósið sem laðar að fæðu fyrir þorskinn

Mynd: Halldór Logi Friðgeirsson / Halldór Logi Friðgeirsson
Fjarðabeit gæti orðið ný tegund fiskeldis á Íslandi. Hún er fólgin í því að nota ljós í neðansjávarbúrum til að laða að ljósátu sem fæðir þorskinn í búrunum. Rannsóknir standa yfir í Steingrímsfirði. Sjávarlíffræðingur segir að árangurinn lofi góðu. Þá eru hugmyndir um að nota sömu tæki til að tæla þorskseiði inn í búr og ala þau þar. Fyrirtækið Ocean EcoFarm ehf. stendur að þessum rannsóknum. Stærstu hluthafar eru norska fyrirtækið Brage inovition og Ísfélag Vestmannaeyja.

Búrin á 30 metra dýpi

Spegillinn sagði frá því fyrir tæpum tveimur árum að tækni hins ófrýnilega djúpsjávarfisks lúsífers gæti valdið byltingu í fiskeldi. Tæknin felst í því að laða ljósátu að ljósi eins og lúsifer gerir. Verkefnið hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma. Tilraunir hófust í febrúar í Steingrímsfirði, úti fyrir Drangsnesi, þar sem komið var fyrir þremur búrum með þorski í á 30 metra dýpi. Norðmaðurinn Vidar Saue á hugmyndina að þessari aðferð sem virðast ætla að virka. Auk hans koma Ísfélagið í Vestmannaeyjum, Hafrannsóknastofnun og reyndar fleiri að verkefninu. Jón Örn Pálsson, sjávarlífræðingur, er einn þeirra sem hafa unnið að verkefninu.

„Við erum að kanna tilgátuna um hvort neðansjávarljós, sem er sérhannað og sjálfbært í sjó, laði að ljósátu í nægilega miklu magni til þess að verða fæða fyrir þorsk sem við erum búin að setja í búr á 30 metra dýpi. Nú erum við búin að reka þetta í yfir þrjá mánuði og þetta eru lofandi gögn sem við erum að fá,“ segir Jón Örn.

        Sjá:Tækni lúsifers gæði valdið byltingu í fiskeldi

Fullur af ljósátu

Í hnotskurn laðar ljósið ljósátuna inn í búrin þar sem þorskur sem er í þeim gæðir sér á þeim. Ljósið er hannað af norsku fyrirtæki í Bergen. Sett voru niður þrjú búr. Tvö þeirra voru með ljós en eitt ekki. Eftir sex vikur kom í ljós að fiskurinn í ljóslausa búrinu var ekki með ljósátu í maganum og var ekki að vaxa mikið.

„En hinum búrunum var fiskurinn fullur af ljósátu og hafði vaxið talsvert.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Jón Örn Pálsson

Ljósátan Agga

Jón Örn segir að það sé ekki alveg ljóst hvers vegna ljósátan laðast að ljósinu. Hún sé tiltölulega ljósfælin tengund og kemur upp í yfirborðslög í sjónum á nóttunni þegar dimmt er en yfir daginn haldi hún sig á miklu dýpi. Í landhelgi Íslands finnast fjórar tegundir af ljósátu. Þrjár halda sig meira úti fyrir ströndinni en ein sérstaklega í djúpum fjörðum.  Ljósátan Agga heldur sig í Steingrímsfirði og líka til dæmis í Ísafjarðardjúpi þar sem talsverður rannsóknir voru gerðar á ljósátu fyrir 20 árum.

Þetta er vistvæn aðferð að við teljum. Þarna eru auðlindir sem má nýta mun betur í landhelgi Íslands en áður hefur verið gert.“

Ekki fiskeldi heldur fjarðabeit

Hann segir að verkefnið eða rannsóknin sé unnin í samvinnu við Hafrannsóknastofnun. Rannsóknir sýna að við Íslandsstrendur séu að minnsta kosti fimm milljónir tonna af ljósátu, sem sé reyndar mjög varleg tala. Áætlað sé að fyrir norðan Ísland, í Norskahafinu og Barentshafi, séu um 300 milljónir tonna af ljósátu. Hann segir að ljósátan sé mikilvæg fæða fyrir skíðishvali og líka fyrir fiskungviði upp að ákveðnum aldri. Ýmsar aðrar tegundir éta ljósátu. Liður í verkefninu er að kanna vistfræðileg áhrif. En hvað með mengun frá þessu eldi, sem gengur undir nafninu fjarðabeit? Jón Örn segir að það sé ekki verið að bæta neinum næringarefnunum inn í vistkerfið.

„Úrgangurinn frá þessum búrum safnast fyrir bæði í föstum og uppleystum úrgangi. Búrin er staðsett nokkuð langt frá sjávarbotni og þar með munu þau dreifast mikið. Þéttleikinn í þeim mun ekki verða mikill, ímynda ég mér. Þannig að á meðan lífrænn úrgangur skapar ekki súrefnisþurrð þá er hægt að tala um þetta sem áburð. Það er ekki hægt að tala um mengun frá þessu í þeim skilningi,“ segir Jón Örn.

Aðrar tegundur koma til greina

Það er þorskur í búrunum en aðrar fisktegundir koma líka til greina. Að sjálfsögðu, segir Jón Örn. Þetta sé kannski bara fyrsta skrefið á langri leið.

„Þegar þú ert farinn að stýra atferli hjá svona stórri auðlind þá opnast bara hreint Pandórubox í því hvað er hægt og ekki hægt. Það er gríðarlega mikilvægt að stunda vandaðar vísindarannsóknir áður en menn gefa þessu tækifæri í fjárfestingum. Markmiðið með þessu verkefni er að afla þeirrar þekkingar sem er nauðsynleg til að nýta auðlindir í landhelgi Íslands miklu betur og með sjálfbærum hætti.“

Dularfulla ljósið

Ljósið sem ljósátan laðast að er sjálfbært. Það er ekki tengt við rafmagn. Jón Örn segir að fyrirtæki í Bergen hafi hannað ljósið.

„Sjór leiðir rafstraum gríðarlega vel og það myndast spenna á milli málma. Ef þú notar réttu málmana, bæði katóðu og anóðu, þá myndast spenna á milli þeirra. Þessa orku nýta menn í lágorku ledljós sem gefur bara mjög þrönga bylgjulengd sem er bylgjulengdin sem ljósátan framleiðir sjálf. Þess vegna er hún að safnast í kringum ljósið að við höldum í meiri mæli en áður hefur verið þekkt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Halldór Logi Friðgeirsson
Unnið við rannsóknir í Steingrímsfirði

Hugmyndir um að veiða smáseiði í búr

Hann segir að möguleikarnir séu margir. Nú sé verið að kanna hvort mögulegt sé að veiða smáseiði af villtum þorski. Tveggja ára þorsk sem er um 150 grömm. Hugmyndin er að nota sömu tækni. Koma fyrir ljósi í þar til gerðum gildrum sem fyllast af ljósátu og lokka til sín seiðin.

„Við vitum að það eru gríðarleg afföll af þorski í náttúrunni. Ef þú veiðir hann í þessari stærð þá ert þú kannski, í gæsalöppum, að bjarga honum frá eigin dauða. Setja hann í búr og laða til hans fæðu. Þar með erum við að nýta þessa takmörkuðu auðlind betur.ׅ“

Mikil afföll af þorski

Hann segir að nokkur ár muni fara í rannsóknir þar til kemur ljós hvort þetta er gerlegt. Um 50% afföll eru af þorski þangað til að hann nær fimm ára aldri. Hann segir mikilvægt að huga að velferð fisksins í búrunum. Þéttleikinn megi ekki vera of mikill. Þorskeldi hafi verið stundað í áratugi í yfirborðskvíum. Þorskinum sé ekki eðlilegt að vera þar í mikilli birtu. Afföllin hafi verið mikil og þorskurinn jafnvel sólbrunnið. Fjarðabeitin miðast við að að ala þorskinn í því umhverfi sem honum líði best í. Á miklu dýpi, miklum þrýstingi, í myrkri og ekki í miklum þéttleika.

„Þannig að við teljum að þau vandamál sem áður voru í þorskeldi að þau ættu ekki að vera svo mikið vandamál í fjarðabeit. Við fáum ekki þau vandamál sem menn upplifðu þegar þeir voru að ala þorskinn í yfirborðssjó.“

Kom okkur þægilega á óvart

Tilraunabúrin eru á um 30 metra dýpi en ef nauðsyn krefur gætu þau farið niður á 80 metra dýpi. Rannsóknirnar sýna að þorskurinn sem er í búrunum þyngist en er fyrirsjáanlegt að þetta verði stór og nýtanlegur þorskur?

„Já við sjáum það fyrir okkur. Við erum að sjá verulegan vöxt. Þó að það hafi verið kalt í sjónum, 1,5 gráður, þá erum við að sjá vöxt upp á annan tug prósenta í þyngdaraukningu á tveggja, þriggja ára þorski. Þannig að þetta kom okkur mjög þægilega á óvart,“ segir Jón Örn Pálsson.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV