Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hraun rennur yfir gönguleiðina að gosinu

15.06.2021 - 15:41
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Hraun rennur nú yfir helstu gönguleiðina að eldgosinu í Geldingadölum. Hún er því lokuð. Hugsanlegt er að gerð verði ný gönguleið á öðrum stað.

Orðið erfiðara að komast nálægt gígnum

Hraun rennur nú á fjórum stöðum niður í Nátthaga. Enn er þó langt í að Nátthagi fyllist af hrauni. Fjórði hraunstraumurinn tók að renna út úr Geldingadölum í fyrradag. Gönguleið A lokaðist þegar hraunið fór að renna yfir hana. Það er gönguleiðin sem flestir fara. Sífellt verður erfiðara að komast nálægt gígnum.

Göngufólki var beint í Nátthaga í gær. Þangað er tiltölulega auðvelt að ganga. Einnig er hægt að fara gönguleið B að gosinu. Hún er erfiðari og verri, segir Hjálmar Hallgrímsson lögreglumaður á Suðurnesjum.

„Við erum að skoða að leggja C-gönguleið við Langahrygg. Við erum bara að skoða það, þurfum að meta hraunflæði og annað. Hugsa nokkra mánuði fram í tímann,“ segir Hjálmar.

Stækkar um níu fótboltavelli á dag

Samkvæmt nýjustu mælingum Jarðvísindastofnunar hefur hraunrennslið verið jafnt síðustu sex vikur. Hraunið er orðið meira en þrír ferkílómetrar að flatarmáli. Það stækkar um 60 þúsund fermetra á dag. Það er jafnmikið og níu fótboltavelli.

Vilja verja Nátthagakrika

Risastór jarðýta verður notuð til að búa til leiðigarð syðst í Geldingatölum. Leiðigarðurinn á að beina hraunstraumnum niður í Nátthaga. Þannig verður reynt að koma í veg fyrir að hraunið komist í Nátthagakrika. Ef hraunið kemst þangað er leið þess greið í ýmsar áttir, til dæmis að hitaveitunni.

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV