Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fyrri bólusetningu brátt lokið á Norðurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Í dag fékk Heilbrigðisstofnun Norðurlands stærstu bóluefnasendingu sem þangað hefur komið í einu, eða 6.500 skammta. Áætlað er að fyrri bólusetningu á Norðurlandi ljúki í næstu eða þarnæstu viku.

Bóluefninu var dreift til sex staða á Norðurlandi. Þannig fóru 300 skammtar á Blönduós, Fjallabyggð og Dalvík, um 700 skammtar fóru á Sauðárkrók og Húsavík, en langmest fór til Akureyrar, eða 4.000 skammtar.

Aðeins níu árgangar óbólusettir

Guðný Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, segir að þegar bólusetning af handahófi hófst á Norðurlandi hafi 39 árgangar verið óbólusettir. Með þessarri sendingu núna segir hún líklegt að náist að bólusetja að lágmarki 30, þannig að þá verði aðeins níu árgangar óbólusettir. „Reyndar þá munum við líklega komast lengra niður á einhverjum stöðum. Niður fyrir árgang 30.“

Allir Norðlendingar fullbólusettir fyrir lok júlí

Og Guðný segir líklegt að fyrri umferð bólusetningar ljúki í næstu eða þarnæstu viku og að allir Norðlendingar verði full bólusettir seinni hlutann í júlí.