Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eins metra regla og 300 mega koma saman í stað 150

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Samkvæmt nýjum reglum um samkomutakmarkanir sem tóku gildi á miðnætti mega nú 300 koma saman í stað 150 áður og fjarlægðarmörk eru stytt úr tveimur metrum í einn.

Þetta kemur fram á vefnum covid.is. Veitingastaðir þurfa áfram að skrá niður gesti sína en leyfilegt er að taka á móti fólki til miðnættis sem þarf þó að yfirgefa staðinn fyrir klukkan eitt.

Verði eins metra reglu ekki viðkomið skulu gestir bera grímu fyrir vitum sér. Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir hafa heimild til að hafa allt að 150 manns á sviði og taka á móti allt að 300 gestum.

Íþróttir eru heimilar, úti og inni og eins íþróttakeppnir og leyfilegt að taka á móti allt að 300 sitjandi gestum sem skulu skráðir.

Sundstaðir eru opnir fyrir leyfilegan hámarksfjölda og það sama á við um heilsu- og líkamsræktarstöðvar nema þar mega ekki vera fleiri en 300 í hverju rými að uppfylltri eins metra reglu.

Undanþegin grímuskyldu eru þau sem fengið hafa COVID-19 og lokið einangrun og eins þau sem til að mynda geta ekki notað þær af heilsufarsástæðum.

Fjöldatakmörkun og fjarlægðarmörk eiga ekki við börn fædd 2015 eða síðar og grímuskylda tekur ekki til barna fædd 2005 og síðar. Reglugerðin gildir til 29. júní næstkomandi.