Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Biðst afsökunar á samanburði grímuskyldu við Helförina

epa09271991 Republican Representative from Georgia Marjorie Taylor Greene holds a press conference to say she visited the Holocaust Museum and wanted to express remorse for comparing mask-wearing to the Holocaust outside the US Capitol in Washington, DC, USA, 14 June 2021.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Marjorie Taylor Greene, þingmaður Repúblikana á Bandaríkjaþingi, hefur beðist afsökunar á því að líkja grímuskyldu við illa meðferð nasista Þriðja ríkisins á Gyðingum og Helförina.

Greene, sem er þingmaður Georgíu-ríkis gagnrýndi þá kröfu að þingmönnum fulltrúadeildar þingsins er gert að bera grímu, þegar hún var í viðtali við stjórnanda íhaldssams hlaðvarps í síðasta mánuði.

Hún bar þá skyldu saman við það að gyðingum í Þýskalandi nasismans hefði verið skylt að bera gula stjörnu á klæðum sínum.

Litið væri á báða hópa sem annars flokks borgara, gyðingarnir hefðu verið fluttir í útrýmingarbúðir og það væri þess háttar meðferð sem Nancy Pelosi leiðtogi Demókrata talaði fyrir.

Þrátt fyrir harða gagnrýni úr ýmsum áttum lét þingmaðurinn ekki segjast þar til eftir heimsókn á Helfararsafnið í Washington í gær.

Eftir hemsóknina þangað bar upp hún upp afsökunarbeiðni sína á tröppum þinghússins og sagði mikilvægt að viðurkenna að hún hefði gengið of langt í ummælum sínum, sem hefðu verið særandi og móðgandi. 

Greene sagði að faðir hennar hefði alltaf sagt að fólki bæri að viðurkenna mistök sína, og það ætlaði hún að gera nú. Hún sagðist þó standa við þá skoðun sína að grímuskylda og skylda til bólusetningar væri ein gerð mismununar. 

Hins vegar sagði hún að sér hefði liðið illa undanfarnar vikur vegna orða sinna enda væri ekki hægt að bera grímuskyldu saman við Helförina. Því bæðist hún afsökunar á þeim ummælum sínum.

Þingmaðurinn Marjorie Taylor Greene hefur vakið talsverða athygli og ágreining vegna margvíslegra ummæla sinna frá því að hún tók sæti á Bandaríkjaþingi í janúar síðastliðnum. 

Meirihluti fulltrúadeildarinnar samþykkti til að mynda í febrúar síðastliðnum að víkja henni úr þeim þingnefndum sem Repúblikanaflokkurinn skipaði hana í.