Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Við viljum hafa stjórn á þessu ef hægt er“

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Í dag hófst vinna við gerð leiðigarðs í syðsta hluta Geldingadala til að beina hrauninu áfram niður í Nátthaga. Lögreglumaður á Suðurnesjum óttast að slysum fjölgi eftir að hraun tók að renna yfir aðalgönguleiðina, til skoðunar er að leggja nýja gönguleið.

Erfiðara að komast nálægt gígnum

Hraun rennur nú á fjórum stöðum niður í Nátthaga, fjórði hraunstraumurinn tók á rás í gær úr Geldingadölum og var enn á fleygiferð í dag, um sólarhring seinna.  Enn er þó langt í að Nátthagi fyllist en þetta lokar gönguleið A fyrir miðju, sem er aðalgönguleiðin og búið var að bæta mikið. Þá verður sífellt erfiðara að komast í návígi við gíginn. En sem betur fer er margt annað að sjá hérna. Gosgöngugörpum var beint inn í Nátthaga í dag sem er tiltölulega auðveld ganga. Þá var hægt að fara gönguleið B.

„Sem er erfiðari og verri. Við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt,“ segir Hjálmar Hallgrímsson lögreglumaður á Suðurnesjum.

Hafiði þá áhyggjur af því að útköllum fjölgi aftur? „Já já. Við höfum það.“

Er til skoðunar að leggja nýja gönguleið? „Það er á teikniborðinu, við erum bara að skoða möguleika. Erum að skoða að leggja C-gönguleið við Langahrygg. Við erum bara að skoða það, þurfum að meta hraunflæði og annað. Hugsa nokkra mánuði fram í tímann. Höfum átt erfitt með það hingað til.“

Níu fótboltavellir á dag

Samkvæmt nýjustu mælingum Jarðvísindastofnunar hefur hraunrennslið verið stöðugt í 12 rúmmetrum á sekúndu síðustu sex vikur og er stærð þess nú yfir 60 milljón rúmmetrar í heild. Flatarmálið er komið yfir þrjá ferkílómetra og hefur aukist um 60 þúsund fermetra á dag frá síðustu mælingu sem samsvarar níu fótboltavöllum.

Vilja verja Nátthagakrika

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

Það er ekki vandræðalaust að koma svona stórri ýtu upp í Geldingadali en en þangað fór hún á endanum, í þeim tilgangi að gera leiðigarð syðst í dalnum sem beinir hrauninu áfram niður í Nátthaga en varnar því að það renni niður í Nátthagakrika, þar sem þaðan er leiðin greið í ýmsar áttir. 

„Við ætlum að byrja á því að setja fjögurra metra leiðigarð hérna, nálægt hraunendanum hér,“ segir Ari Guðmundsson, verkfræðingur.

Ekki er talið að þetta kosti meira en tíu til tuttugu milljónir. En er þetta ekki tapað stríð miðað við hvernig garðarnir reyndust fyrir ofan Nátthaga? „Við teljum að þetta sé ekki tapað stríð. Með því að setja neyðarruðning upp að erum við að vernda vinnusvæði og kaupa okkur tíma,“ segir Ari.

„Þetta getur skipt okkur gríðarlegu máli. Við viljum ekki missa hraunið niður í Nátthagakrika, í suður eða í átt að hitaveitunni eða fleira. Við viljum hafa stjórn á þessu ef hægt er,“ segir Hjálmar.