Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vænta einskis af nýrri stjórn í Ísrael

14.06.2021 - 12:31
Erlent · Asía · Ísrael · Stjórnmál
epaselect epa09267595 Leader of the Yemina party and designated prime minister Naftali Bennett speaks during a special voting session on the formation of a new coalition government at the Knesset Plenum, at the Knesset, Israeli parliament, in Jerusalem, Israel, 13 June 2021.The Knesset is convening for a vote that is expected to end the historic 12-year rule of Prime Minister Benjamin Netanyahu.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels. Mynd: EPA-EFE - EPA
Palestínumenn gera ekki ráð fyrir að samskipti þeirra við stjórnvöld í Ísrael eigi eftir að breytast þótt ný ríkisstjórn sé tekin við völdum. Nýr forsætisráðherra landsins þykir jafnvel enn harðari í horn að taka í afstöðunni til Palestínu en sá sem lét af embætti í gær eftir síðustu tólf ár við stjórnvölinn.

Mohammed Shtyyeh, forsætisráðherra Palestínu, sagði áður en hann settist á ríkisstjórnarfund í Ramallah í dag, að brotthvarf Benjamíns Netanyahús úr embætti forsætisráðherra markaði endalok eins versta tímabilsins í samskiptum Ísraelsmanna og Palestínumanna til þessa. Hins vegar gæti hann ekki ímyndað sér að nýir stjórnarherrar ættu eftir að stuðla að friðarsamkomulagi við Palestínu. Ekkert benti til þess að nýja stjórnin ætti eftir að verða skárri en sú gamla.

Þá fordæmdi hann yfirlýsingu Naftalis Bennetts forsætisráðherra um stuðning við landtökubyggðir á palestínsku landi. Shtayyeh bætti því við að nýja stjórnin ætti ekki langa framtíð fyrir höndum ef hún neitaði að taka tillit til palestínsku þjóðarinnar og lagalegra réttinda hennar. 

Traustsyfirlýsing við nýju stjórnina var samþykkt naumlega á Knesset, ísraelska þinginu í gær. Sextíu þingmenn greiddu henni atkvæði, fimmtíu og níu voru á móti.