Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir Aron vera fagmann fram í fingurgóma

Mynd: EPA / EPA

Segir Aron vera fagmann fram í fingurgóma

14.06.2021 - 20:17
Aron Pálmarsson er nú sá Íslendingur sem hefur næst oftast unnið Meistaradeildina en hann var í sigurliði Barcelona í gær. Aðeins einn Íslendingur hefur unnið Meistaradeild Evrópu oftar en Aron, það er Ólafur Stefánsson sem vann keppnina fjórum sinnum.

Í samtali við RÚV í dag sagði Aron að það væri geggjað að það væri orðið eðlilegt hjá sér að ná þessum árangri í Meistaradeildinni, en auk þess að vinna deildina þrisvar hefur Aron fimm sinnum keppt til úrslita og tíu sinnum hefur hann komist í undanúrslit. 

Ólafur Stefánsson þekkir það vel að leika til úrslita í Meistaradeildinni en hann var í sigurliði keppninnar fjórum sinnum. Hann segir árangur Arons vera ótrúlegan. „Hans árangur er ótrúlegur og líka hvað hann hefur verið oft í úrslitunum frá því að þeir byrjuðu í Köln. Sem er ótrúlegt, að vera með þremur mismunandi liðum og hjálpa til við að koma þeim í hóp hinna stærstu er náttúrulega frábært afrek,” segir Ólafur. 

Mörgum Íslendingum virðist finnast það sjálfsagður hlutur að Aron komist í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar ár eftir ár en Ólafur segir mikilvægt að muna hversu mikil vinna liggi þar að baki. „Það er eðlilegt að finnast það sjálfsagt. En ef maður kíkir á bakvið hvað þarf til þess að það sé sjálfsagt. Þá þarf að vakna á morgnana og mæta í vinnuna, og ekki bara mæta, í íþróttum almennt er þér frekar fljótt refsað ef þú ert eitthvað bara að mæta, það sést fljótt. Menn þurfa að vera vel gíraðir. Þetta afrek sýnir að hann er fagmaður fram í fingurgóma,” segir Ólafur.

Tengdar fréttir

Handbolti

„Geggjað að þetta sé „normið“ hjá manni“