Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Norræn ríki í fremstu röð en Ísland eftirbátur þeirra

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Norrænu ríkin eru góð fyrirmynd annarra þegar kemur að fjölmiðlafrelsi og þau bera ábyrgð gagnvart öðrum þjóðum að auka fjölmiðlafrelsi enn frekar. Þetta sagði Ulrika Hyllert, formaður Blaðamannafélags Svíþjóðar og forseti Norrænu blaðamannasamtakanna, á málþingi Blaðamannafélags Íslands í dag. Hún benti eins og fleiri framsögumenn á að Ísland stæði öðrum norrænum ríkjum að baki í mælingu á fjölmiðlafrelsi og úr því yrði að bæta. Viðskiptaumhverfi, framganga Samherja og fleiri mál bar á góma.

Blaðamannafélag Íslands og norrænu sendiráðin stóðu að málþinginu Fjölmiðlafrelsi á Íslandi og hinum Norðurlöndunum 2021 sem fram fór í Norræna húsinu í Reykjavík í dag. Þar var augum beint að hnignandi fjölmiðlafrelsi undanfarin ár og hvernig íslenskir fjölmiðlar, blaðamenn og rannsóknarblaðamennska væru í samanburði við hinar norrænu þjóðirnar. 

Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs á Íslandi, setti ráðstefnuna og ræddi ógnir sem fjölmiðlafólk stendur frammi fyrir. Ofbeldi og ógnanir eru hluti af veruleikanum á Norðurlöndum, sagði Norheim og kvað mikilvægt að ráðamenn tjáðu sig opinberlega og fordæmdu slíkar hótanir. 

Ísland frábrugðið öðrum Norðurlöndum

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, sagði það umhugsunarefni hvers vegna Ísland stæði öðrum Norðurlöndum að baki í mælingu samtakanna Blaðamenn án landamæra á fjölmiðlafrelsi. Noregur, Finnland, Svíþjóð og Danmörk njóta mest fjölmiðlafrelsis að sögn samtakanna en Ísland er í 16. sæti. 

Jón Gunnar Ólafsson, doktor í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands, sagði að norrænum fjölmiðlamarkaði væri oft lýst sem nokkuð samstæðum, þar sem velferðarríkið næði einnig til fjölmiðlamarkaðarins með sterkum almannamiðlum og styrkjum til einkarekinna fjölmiðla. Hann sagði þá lýsingu þó byggja á að íslenski fjölmiðlamarkaðurinn hefði löngum lítið verið rannsakaður, Ísland flækti nefnilega stöðuna þegar ætti að lýsa norræna fjölmiðlakerfinu. Til dæmis væri lítið kannað hvað áhrif smæð Íslands hefði, þar sem svæðismiðlar væru veikari en annars staðar og fjölmiðlar á landsvísu litlir. Hann velti því upp hvort þörf væri fyrir meiri opinbera styrki til handa einkareknum fjölmiðlum á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum vegna smæðarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Gestir á málþinginu.

Geta varpað ljósi á spillingu

Olav Njaastad hjá Norrænu blaðamannamiðstöðinni sagði að möguleikar væru góðir til að varpa ljósi á spillingu og það sem færi úrskeiðis. Hann tók þó fram að ef ekkert annað gerðist væri viðbúið að allt héldist óbreytt þegar fréttaflutningurinn væri afstaðinn. Hins vegar gæti lögregla rannsakað og ákært það sem fjölmiðlar afhjúpa og stjórnir fyrirtækja gætu rekið stjórnendur og bætt stjórnarhætti. 

Einn eftir af þremur

Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, lýsti reynslu sinni af að fjalla um viðskiptahætti Samherja í Namibíu og viðbrögðum fyrirtækisins. Hann sagði að allsherjar árás Samherja, sem yrði vart öðruvísi lýst en sem hryðjuverkum fyrirtækis, hefði hafist fljótlega eftir að stjórnendur fyrirtækisins urðu rannsóknarinnar varir. Þá hefði Samherji lagt mannafla og fjármuni í að fylgjast með og njósna um blaðamenn, hóta þeim og uppljóstraranum til að koma í veg fyrir fréttaflutninginn. Þetta hefði ekki aðeins beinst gegn blaðamönnunum heldur einnig útgefanda bókarinnar Ekkert að fela. Þá bók er nú verið að þýða á ensku fyrir tilstuðlan norsku þróunarstofnunarinnar. 

Helgi sagði að í meira en ár hefðu árásir fyrirtækisins haft áhrif á störf hans og starfsfrið. Nú væri hann einn eftir á RÚV af þeim þremur starfsmönnum Kveiks sem hófu umfjöllunina um Samherja. Helgi sagði að fyrirtækið hefði reynt að gera starfið eins erfitt og mögulegt væri og helst ómögulegt að sinna því. Hann sagði að Samherjamenn hefðu aldrei reynt að sannfæra fólk um réttmæti eða rangmæti fréttaflutningsins heldur aðeins beina athyglinni að öðrum.

Í lok framsögu sinnar velti Helgi því upp hvers vegna Samherji hefði reynt sömu aðferðir á Íslandi og í Færeyjum, að ráðast á trúverðugleika fréttamanna, en beitt öðrum aðferðum í Hollandi, Noregi og víðar. 

Norrænir fjölmiðlamenn frá fjórum löndum sem tóku þátt í málþinginu sögðust ekki kannast við álíka árásir fyrirtækja á hendur fjölmiðlafólki og lýst væri í Samherjamálinu, nema hvað Ulrika Hyllert, formaður Blaðamannafélags Svíþjóðar og forseti Norrænu blaðamannasamtakanna, sagðist þekkja eitt dæmi þess að blaðamaður á héraðsblaði í Svíþjóð hefði verið hrakin úr starfi, hún hefði fjallað gagnrýnið um stjórnmálamenn og spillingu og einn flokkanna haft ítök í blaðinu sem hún vann hjá.

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Hluti framsögufólks.

Reynslan á Norðurlöndum

Hyllert, Jón Brian Hvidtfelt, formaður Blaðamannafélags Færeyja, og Maria Pettersson, ritstjóri Journalisti, blaðs finnsku blaðamannasamtakanna, lýstu veruleika fjölmiðlafólks í löndum sínum.

Hvidtfeld sagði smæð og tengsl í Færeyjum standa fjölmiðlafólki fyrir þrifum. Manneskjan sem er viðfang fyrstu fréttar í kvöld getur verið manneskjan við hliðina á þér í biðröð í búð á morgun, sagði hann til marks um fámennið. Hann sagði að áhrifafólk gæti stundum notað ákvarðanir um auglýsingakaup til að ná sér niðri á fjölmiðlum en að þar hefði ekkert gerst í líkingu við lýsingarnar á framgöngu Samherja.

Pettersson sagði hótanir í garð fjölmiðla vera vandamál og að samfélagsmiðlar hefðu hvort tveggja haft auglýsingafé af fjölmiðlum og orðið vettvangur fyrir hatursorðræðu í garð fjölmiðla. Þó væri fjölbreyttur fjölmiðlamarkaður í Finnlandi og ákvæði um greitt aðgengi að skjölum hins opinbera.

Hyllert sagði ógnanir, ofbeldi og hatur í garð fjölmiðla vera vandamál í Svíþjóð, illa hefði gengið að fá áreiðanlegar upplýsingar í kórónuveirufaraldrinum og að löggjöf um hryðjuverkavarnir tæki ekki mið af eðli og starfsemi fjölmiðla. Norrænu ríkin væru þó fyrirmynd annarra þegar kæmi að fjölmiðlafrelsi og sagði hún það vera á ábyrgð íslenskra stjórnvalda að koma Íslandi í fremstu röð á því sviði.

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Ritstjórnarskrifstofa Fréttablaðsins.

Ritstjórar þriggja íslenskra fjölmiðla tóku þátt í pallborði. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, sagði aðstæður fjölmiðla hérlendis hafa versnað síðasta áratuginn. Það væri að hluta vegna tæknibreytinga en að hluta vegna þess að stjórnmálamenn vildu veika fjölmiðla. Hann sagði að stjórnmálaflokkarnir hefðu stóraukið fjárframlög til sjálfra sín og notað þau til að framleiða áróður og ráða fjölmiðlafólk til starfa. Á sama tíma hefðu ýmsir stjórnmálamenn ráðist á og vegið að fjölmiðlum.

Þórir Guðmundsson, ritstjóri Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, sagði það styrk hér á landi að almenningur hefði mikinn áhuga á fréttum og væri gagnrýninn bæði á yfirvöld og fjölmiðla. Á móti veikti fámennið fjölmiðla, því væru fjölmiðlarnir á Íslandi smáir þótt málin sem þeir fjalla um séu oft stór. Meðal þess sem veldur vanda er að netrisar og RÚV herja á auglýsingamarkaðinn og þrengja þannig að einkareknum fjölmiðlum úr báðum áttum, sagði Þórir.

Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, sagði að stærsta ógnin við íslenska fjölmiðla væri efnahagslegs eðlis, ekki vegna COVID heldur aðallega vegna ósanngjarnrar samkeppni við RÚV um auglýsingar. Hann sagði fjölmiðla standa frammi fyrir ógnunum um málshöfðanir vegna umfjöllunar í hverri viku, óháð því hvort fréttirnar væru réttar eða rangar. Þannig væri þrýst á fjölmiðla að draga fréttir til baka með ógnunum um kostnaðarsöm málaferli.

Mynd með færslu
 Mynd: Ingólfur Bjarni Sigfússon - RÚV
Fréttamenn að störfum við Höfða þegar varaforseti Bandaríkjanna kom í opinbera heimsókn.

Alþingi samþykkti fyrr á árinu fjárstuðning til einkarekinna fjölmiðla á þessu ári og því næsta til að styrkja stöðu þeirra í versnandi efnahagsumhverfi fjölmiðla. Sams konar ríkisstyrkur var veittur á síðasta ári og þá rökstuddur með efnahagslegum áhrifum COVID.

Jón, ritstjóri Fréttablaðsins, sagðist telja hættu á að fjölmiðlar sem þægju fé úr ríkissjóði kynnu að halda aftur af sér í umfjöllun. Hann sagðist þó ekki hafa dæmi um slíkt, hvorki héðan né úr samtölum við norræna starfsbræður sína. Jón Brian Hvitfeld, formaður Blaðamannafélags Færeyja, sagði æskilegt að opinberir styrkir til fjölmiðla yrðu auknir frá því sem nú er. Ulrika Hyllert, formaður Blaðamannafélags Svíþjóðar og forseti Norrænu blaðamannasamtakanna, sagði að styrkir til einkarekinna fjölmiðla væru mikilvægir en tók fram að þeim mættu ekki fylgja kröfur um umfjöllunarefni. Maria Pettersson, ritstjóri Journalisti í Finnlandi, sagði að opinberir styrkir væru ekki ógn við fréttaflutning, eins og sæist af gagnrýninni umfjöllun finnska almannamiðilsins, YLE, um finnska stjórnmálamenn.