Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lausn í sjónmáli fyrir talmeinafræðinga en fé skortir

14.06.2021 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands vill leysa vanda talmeinafræðinga á Akureyri með því að gera samning við fyrirtækið þeirra í stað einstaka talmeinafræðinga. Að óbreyttu þyrftu þeir að hætta að sinna rúmlega 60 börnum vegna þess að þá skortir tveggja ára starfsreynslu.

Of litlir peningar eru settir í þjónustu talmeinafræðinga og upphæðin dugir ekki til að allir talmeinafræðingar geti veitt niðurgreidda þjónustu strax eftir útskrift. Eins og fram hefur komið þurfa talmeinafræðingar víða um land að hætta að sinna börnum eftir að námi og handleiðslutímabili er lokið. Samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands þurfa þeir fyrst að ná sér í tveggja ára starfsreynslu.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir lausn í sjónmáli fyrir yfir 60 börn hjá tveimur nýútskrifuðum talmeinafræðingum á Akureyri sem að óbreyttu þyrftu að fara aftur á biðlista.

„Við höfum boðið stofunni á Akureyri nýjan samning þar sem yrði samið við fyrirtækið frekar heldur en einstaka veitendur þjónustunnar. Þá geta þeir sem hafa takmarkaðri reynslu í rauninni unnið á ábyrgð fyrirtækisins. Það myndi leysa þetta vandamál að minnsta kosti að nokkru leyti.

En ekki að öllu leyti. Það er víða um land þar sem talmeinafræðingar þurfa í rauninni að hætta að sinna skjólstæðingum eftir þetta handleiðslutímabil.  Er ekki hægt að leysa allan vandann með svipuðum hætti?

Jú, við viljum gjarnan fara þessa leið en hluti af vandanum er auðvitað það að ef við tökum inn alla þá talmeinafræðinga sem eru með reynslu innan við tvö ár; að það rúmast ekki innan þeirra fjárveitinga sem Alþingi hefur veitt í þennan málaflokk. Við höfum upplýst okkar ráðuneyti um það. Um þessa stöðu.

Þannig að það skortir í rauninni bara peninga til að vinna á þessum biðlistum?

Þetta eru nú auðvitað alltaf flóknara mál heldur en það. Það þarf auðvitað að skoða forgangsröðunina vel. Hvaða verkefnum er verið að sinna. Væntanlega ættu börnin að njóta sérstaks forgangs. Síðan þarf sannarlega að endurskoða þessa samninga og færa þá yfir í fyrirtækjasamninga. Þá myndi nýtast betur fjármagnið og þjónustan væri samfelldari fyrir þá sem á henni þurfa að halda.

En er á einhvern hátt verið að færa þessi verkefni yfir til sveitarfélaga. Nú eru sveitarfélögin að ráða til sín talmeinafræðinga?

Já, það virðist vera mjög góð þróun vegna þess að þá reikna ég með að bjóða eigi þessa þjónustu að meira leyti í skólunum, alveg frá leikskólastigi. Það hlýtur að vera góð þjónusta við bæði börn og foreldra að þjónustan sé veitt innan skólaumhverfisins,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.