Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Læknisskoðun fótboltamanna fyrirbyggir ekki allan vanda

14.06.2021 - 08:53
Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Þó svo að knattspyrnumenn á borð við Christian Eriksen, liðsmann danska landsliðsins, gangist árlega undir ítarlega læknisskoðun greinast ekki allir undirliggjandi áhættuþættir. Þetta segir Reynir Björnsson læknir sem starfað hefur fyrir KSÍ við landsleiki. Christian hné niður í leik Dana og Finna á Evrópumótinu í knattspyrnu á laugardag. Mikilvægt sé þegar fólk fer í hjartastopp að hefja hjartahnoð sem fyrst.

Rætt var við Reyni í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

„Það er alltaf tekið hjartalínurit á hverju ári. Það eru hjartaómskoðanir að minnsta kosti annað hvert ár. Það er farið yfir fjölskyldusögu. Menn eru skoðaðir, hlustaðir og fara yfirleitt í áreynslupróf alla vega ef þeir eru að skipta um lið. Þannig að það er auðvitað verið að fanga þar eitthvað af undirliggjandi áhættuþáttum sem gætu stuðlað að hjartastoppi. Einhverjar takttruflanir, eitthvað sem sést á riti eða í ómskoðun, stækkun á hjarta en þú greinir aldrei allt þarna og það er sama hversu vel þú ert rannsakaður það getur samt gerst eins og kom í ljós í fyrradag,“ segir Reynir. 

Eru þessi atvik oftast álagstengd eða er þetta eitthvað sem hefði getað gerst hvar og hvenær sem er ef það er undirliggjandi hjartagalli eða eitthvert vandamál?

„Já, líklega gæti það gerst hvenær sem er en kannski eru meiri líkur á því við mikið álag. Menn hafa til dæmis núna verið að velta því fyrir sér hvort þetta gerðist af því að það var svo mikið álag á honum. Nú er þetta að vísu maður í mjög góðri þjálfun. Hann er nýkominn í nýtt lið, þar sem hann hafði ekki verið að spila neitt rosalega mikið nema seinni hluta tímabilsins. Þannig að það var alla vega ekki mikið álag þarna,“ segir Reynir.

Þá er ekki óalgengt að hjartavöðvinn stækki hjá íþróttamönnum. „En það er oftast talið af hinu góða. En svo er til annað sem er ekki af hinu góða. En ómskoðanir eiga að fanga þetta og áhættuna. Svo tengist það auðvitað lyfjamisnotkun og var kannski meira áður fyrr alla vega í knattspyrnunni. Þeir eru prófaðir mikið í dag og sérstaklega utan keppni. En menn hafa alltaf haft áhyggjur af því varðandi stera og annað slíkt,“ segir Reynir. 

Hann furðar sig á því að leiknum hafi verið haldið áfram á laugardeginum. Liðsmenn danska landsliðsins hafi ekki verið í ástandi til að spila. 

En hvað á að gera ef maður sér manneskju hníga niður?

„Aðalmálið og það sem við eigum öll að gera er að fara á endurlífgunarnámskeið,“ segir Reynir. Mikilvægt sé að verða góður í því sem er einfalt að gera. „Að þekkja það sem er að gerast, átta sig á að þetta er hjartastopp. Ef einhver dettur niður, svarar ekki, það er enginn áverki eða neitt slíkt. Númer tvö er að kalla á hjálp, hringja í 112. Og hefja strax endurlífgun, hjartahnoð. Svo á öllum stöðum í dag, sundstöðum, íþróttavöllum, eiga að vera stuðtæki. Svo þarf að kunna að nota þetta,“ segir Reynir.

Er eitthvað sem maður á alls ekki að gera?

„Já, það er alltaf verið að tala um tunguna, að maður gleypi tunguna. Maður gleypir ekki tunguna. Við meðvitundarleysi sígur hún aftur. Það er á einfaldan hátt hægt að halda öndunarvegi opnum með því að lyfta undir hökuna. Það má að sjálfsögðu, ef maður ekki með þetta á hreinu, að leggja viðkomandi í læsta hliðarlegu, og þar með tryggja öndunarveginn meðan maður bíður eftir hjálp. En aðalmálið er að ef það er hjartastopp, að maður byrji að hnoða. En það hefur svolítið verið talað um þessa tungu. Maður á alls ekki að fara upp í munninn og þarna niður og reyna að ná í tunguna. Það er ekki eitthvað sem er kennt,“ segir Reynir.