Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

KR-ingar þeir fyrstu til að vinna í Breiðholti

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

KR-ingar þeir fyrstu til að vinna í Breiðholti

14.06.2021 - 21:08
KR vann góðan sigur á Leikni í eina leik kvöldsins í efstu deild karla í fótbolta. Fyrir leik var lið Leiknis ósigrað á heimavelli á tímabilinu.

KR-ingar byrjuðu leikinn vel í Breiðholti í kvöld og fyrsta markið kom strax á 6. mínútu. Boltinn barst þá til Pálma Rafns eftir horn og Pálmi þrumaði boltanum í netið. Bæði lið fengu ágætis færi í kjölfarið. Gestirnir voru meira með boltann en heimamenn áttu ágætis skyndisóknir. 

Á 50. mínútu komst KR í 2-0 þegar Kjartan Henry Finnbogason skoraði. Ægi Jarl Jónasson átti þá góða sendingu á Kristján Flóka Finnbogason sem vippaði boltanum snyrtilega yfir Guy Smit í markinu. Rétt áður en boltinn skoppaði yfir línuna mætti Kjartan Henry og stal í raun markinu af Kristjáni Flóka með að eiga síðustu snertinguna. 

Sigur KR var aldrei í hættu eftir að hafa komist í 2-0. KR er þá komið í þriðja sæti deildarinnar með 14 stig á meðan að nýliðar Leiknis eru í sjöunda sæti með átta stig.