Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Katrín við von der Leyen: Ísland má ekki gleymast

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, átti fund með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á fundi leiðtoga Atlantshafsbandalagsríkjanna í dag.

Var það í fyrsta sinn sem leiðtogarnir hittast í eigin persónu eftir langvarandi takmarkanir vegna COVID-19 faraldursins.

Nauðsynlegt að gæta hagsmuna Íslands

Katrín notaði tækifærið til að minna á mikilvægi þess að sem EFTA-ríki væri Ísland aðili að EES-samningnum og mjög mikilvægt væri að gæta hagsmuna okkar Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu.

Tilvik þar sem Ísland gleymdist

Katrín nefndi í því sambandi að upp hefðu komið tilvik þar sem Ísland hefði hreinlega gleymst og minnti á nýlegt dæmi varðandi reglugerð um bóluefnamál sem bæri vitni um það. Nauðsynlegt væri því að halda vöku sinni og standa stöðugan vörð um hagsmuni Íslands í þessu sambandi.