Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bubbi Morthens – Sjálfsmynd

Mynd: RÚV / Vikan

Bubbi Morthens – Sjálfsmynd

14.06.2021 - 18:40

Höfundar

Á miðvikudag kemur út platan Sjálfsmynd sem er þrítugasta og fjórða hljóðsversplata Bubba Morthens. Á plötunni vinnur Bubbi aftur með sama gengi og sömu hljóðfæraleikurum og á síðustu plötu sinni, Regnbogans stræti.

Ásbjörn Kristinsson Morthens eða bara Bubbi, fagnaði fjörutíu ára afmæli sinnar fyrstu plötu, Ísbjarnarblús, í fyrra. Hann hefur mikla sérstöðu í íslenskri dægurtónlist eins og flestir vita og er líklega afkastamesti tónlistarmaður sögunnar á landinu kalda, með sínar þrjátíu og fjórar hljóðversplötur undir belti. Auk þess að hafa verið í Utangarðsmönnum, Egó, Das Kapital, MX21, GCD hefur hann verið áberandi í ýmsum öðrum verkefnum allt frá bókaútgáfu, myndlist, ljóðagerð og leikhúsi svo eitthvað sé nefnt.

Á Sjálfsmynd vinnur Bubbi með sama flokki og vann með honum á Regnbogans stræti: Guðmundi Óskari Guðmundssyni upptökustjóra og bassaleikara, Hirti Ingva Jóhannssyni hljómborðsleikari, Erni Eldjárn gítarleikara, Aroni Steini Ásbjarnarsyni saxófónleikara og Þorvaldur Þór Þorvaldsson trommara. Auk þeirra eru gestasöngvarar með Bubba í för en það eru meðal annarra Bríet, GDRN, Auður og Aurora Kammerkór undir kórstjórn Sigríðar Soffíu Hafliðadóttur.

Sjálfsmynd, þrítugasta og fjórða hljóðsversplata Bubba Morthens, er plata vikunnar á Rás 2 að þessu sinni og verður spiluð í heild sinni ásamt kynningum Bubba eftir 10-fréttir í kvöld ásamt að vera aðgengileg í spilara.

Mynd með færslu
 Mynd: Alda - Sjálfsmynd