Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Beina hraunrennsli frá Nátthagakrika

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vinnur nú að því að byggja fjögurra metra háan leiðigarð syðst við Geldingadali til þess að beina hraunrennsli áfram niður í Nátthaga og koma í veg fyrir að hraun renni niður í Nátthagakrika þaðan sem það á greiða leið í ýmsar áttir. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir þetta fremur einfalda aðgerð sem gæti haft mikið að segja.

„Það byrjaði að renna hraun þarna niður í gær sem fer niður í Nátthaga og við viljum að það fari áfram niður í Nátthaga en ekki niður í Nátthagakrika. Ef það fer þangað á það greiðari leið í alls konar áttir; þá er opið til norðurs, vesturs og suðurs, að Suðurstrandarvegi og líka opnara að Grindavík og Svartsengi og Grindavíkurvegi,“ segir hann. 

Þó þurfi mikið magn til þess að hraun komist á þessar slóðir. „En við verðum að reikna með því versta. Það mun taka tíma, en við vitum ekkert hvort við erum að horfa á atburð sem verður í fimm mánuði eða 30 ár. Okkur finnst allavega nauðsynlegt að kaupa okkur tíma til að seinka því að eitthvað verði undir,“ segir Rögnvaldur.

Hann bætir við að það sé tiltölulega einfalt að byggja leiðigarða og garðarnir séu ekki ósvipaðir varnargörðunum, en þó með annan tilgang. „Leiðigarðar eiga ekki að stöðva hraunrennslið heldur að beina því í ákveðna átt. Við höfum trú á að það virki,“ segir hann. Reynslan af varnargörðum hafi verið góð, þeir hafi ekki brostið þrátt fyrir að hraun hafi runnið yfir þá.

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV