Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Baltasar og Idris Elba ná vel saman í Suður-Afríku

Mynd: EPA / RÚV

Baltasar og Idris Elba ná vel saman í Suður-Afríku

14.06.2021 - 18:00

Höfundar

Baltasar Kormákur, leikstjóri, er staddur í Suður-Afríku og leikstýrir þar Hollywood-kvikmyndinni Beast fyrir Universial Studios. Með aðalhlutverkið fer stórleikarinn Idris Elba. „Hann er einn af örfáum stjörnum sem er líka frábær leikari,“ segir Baltasar.

Kvikmyndin Beast fjallar um brotna fjölskyldu frá Bandaríkjunum sem fer til Suður-Afríku, en móðirin sem er fallin frá er ættuð þaðan. Tilgangur ferðarinnar er að kynna dæturnar fyrir rótum móður sinnar. „En síðan gerast óvæntir atburðir eins og oft vilja gerast í kvikmyndum,“ segir Baltasar Kormákur í viðtali í Lestinni á Rás 1.

Með aðalhlutverk í myndinni fer breski leikarinn Idris Elba. Baltasar segir að samstarf þeirra gangi einkar vel. Það fer ekki endilega alltaf saman að vera stjarna og góður leikari, að sögn Baltasars. Oft verði leikarar að stjörnum vegna persónutöfra frekar en leiklistarhæfileika. „Guð gaf Idris Elba bæði. Hann er feikilega flinkur leikari og áhugavert að vinna með honum.“

Blóðþyrst ljón sem ógnar íbúum kemur við sögu í myndinni. Sjálfur hefur Baltasar orðið var við ljón, fíla og nashyrninga í garðinum hjá sér. Hann segist meðvitaður um hættuna og fari varlega en nýlega hafi hann vogað sér of nálægt fíl. Þá hafi fíllinn tekið upp á því að kasta að honum steini. „Bara hljóðin sem heyrast hér á næturnar, þetta er geðveikt.“

Við gerð myndarinnar er notast við alvöru ljón í bland við tölvuteiknuð. „Það er ekki hægt að stjórna ljónum mikið, svo það er ýmist,“ segir Baltasar.

Áætlað er að kvikmyndin Beast verði sýnd sumarið 2022.  

Rætt er við Baltasar Kormák í Lestinni á Rás 1.  

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Söguþráður Kötlu fær skýrari mynd í nýrri stiklu

Kvikmyndir

„Þetta er í raun mesta floppið mitt“

Kvikmyndir

Tók „lítinn Tom Cruise“ þegar Netflix stoppaði Kötlu