Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undirritun skilmála fyrir nýjum þjóðgarði frestast

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Orkubú Vestfjarða hefur áhyggjur af því að fyrirhugaður þjóðgarður á Vestfjörðum muni standa í vegi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu raforkuinnviða í landshlutanum. Skilmálar verða ekki undirritaðir 17. júní eins og upphaflega stóð til.

Tuttugu og ein athugasemd barst frá fyrirtækjum og einstaklingum um tillögu að friðlýsingarskilmálum fyrirhugaðs þjóðgarðs á Vestfjörðum. Þó nokkrar undirstrika mikilvægi þess að þjóðgarður standi ekki í vegi fyrir uppbyggingu innviða. Þeirra á meðal er Orkubú Vestfjarða sem telur hætt við að orkunýting og -flutningur verði ekki leyfilegur, þó að skilmálarnir banni það ekki berum orðum.

„Ég held það sé óþarfi að skilja slíkt eftir í einhverri óvissu. Núna er tíminn til að taka á því hvort það er heimilt eða ekki. Núna er tækifærið, það er verið að fjalla um skilmálana og það á bara að hafa hreint borð í þessu efni,“ segir Elías Jónatansson orkubússtjóri.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar er ósammála því að leyfa þurfi virkjun og nýtingu orku sérstaklega í skilmálunum. 

„Hvað varðar virkjanakosti á svæðinu þá er ekkert í skilmálum sem banna það. Komi til þess að menn komi með einhverja virkjanakosti sem þeir vilja láta rannsaka þá fer það í sitt lögformlega ferli, en skilmálarnir sem slíkir banna ekki virkjun innan svæðisins.“

Vill að orkunýtingakostir innan þjóðgarðs séu skoðaðir

Þjóðgarðurinn á að ná yfir land og náttúruperlur í ríkiseigu á Suðurfjörðum. Þeirra á meðal eru náttúruvættin Surtarbrandsgil og Dynjandi. Friðlandið Vatnsfjörður og einnig Geirþjófsfjörður og Hrafnseyri. 

Orkubúið telur þá að það þurfi að skoða vandlega þá raforkukosti sem eru til handa innan vébanda þjóðgarðsins. Þeirra á meðal er vatnsaflsvirkjun í Vatnsfirði. 

„Það eru nokkrir reyndar valkostir innan þjóðgarðsins sem þarf að skoða betur. Ég tel að á meðal þeirra séu valkostir sem séu einhverjir umhverfisvænstu valkostir á Vestfjörðum í vatnsaflsvirkjunum og það þarf að fara betur ofan í það hefði ég haldið,“ segir Elías.

Úrvinnsla athugasemda og lokavinna við skilmálana standa nú yfir. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að skilmálarnir yrðu undirritaðir sautjánda júní, það gengur ekki eftir og frestast því fram á sumar.