Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Það dugar ekkert eitt skref“

Mynd: RÚV / Skjáskot
Um 100 hjúkrunarrými verða tekin í notkun á höfuðborgarsvæðinu síðar í ár og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vonast til að það leysi vanda bráðadeildar Landspítala að hluta. Hún segir að ekkert eitt skref nægi í þessum efnum.

Mikil mannekla er á bráðadeild og öryggi sjúklinga er í hættu að mati Félags bráðalækna. Landlæknir sagði í síðustu viku að staðan hefði aldrei verið jafn slæm og stíf fundahöld voru hjá stjórnendum Landspítala við að leita lausna. Hluti vandans er að hlutfall sjúklinga á spítalanum sem bíða eftir öðrum úrræðum hefur aldrei verið hærra og fjölgun hjúkrunarrýma myndi því létta á deildinni.

„Þetta er auðvitað gömul saga og ný að sumu leyti. Við sjáum að þarna eru einhver verkefni sem verið er að huga að innanhúss. Framkvæmdastjórnin hefur verið að funda og hefur beint sínum tilmælum til stjórnenda innan spítalans að leggjast á árar með bráðamóttökunni til að tryggja flæði sjúklinga innan spítalans,“ segir Svandís. „Við erum líka með í farvatninu allt að 100 hjúkrunarrými hér á höfuðborgarsvæðinu til þess að bregðast við. Sú vinna er komin í gang hjá Sjúkratryggingum Íslands, við eigum fyrir því á fjárlögum þannig að sú vinna er í gangi og það kemur líka til að létta á þessu.“

Svandís segir að hjúkrunarrýmin verði í húsnæði sem þegar er til og þau verði tilbúin síðar í ár. 

Dugar það? „Við eigum eftir að uppfylla þörf fyrir hjúkrunarrými á næstu árum og áratugum og það dugar ekkert eitt skref í þeim efnum. Við þurfum að halda á spöðunum, við þurfum líka að bjóða upp á fleiri úrræði - þetta verður eitt af stærstu verkefnunum næstu áratuga, þjónusta við aldraða á öllum stigum.“

En þetta er ítrekað - þetta er ekkert nýtt, að vandi bráðadeildar sé sem þessi. Er þetta óleysanlegt verkefni? „Nei, það held ég ekki. Það hefur verið gripið til ráðstafana bæði innan spítalans og utan. Og ég vonast til þess að þau skilaboð sem ég hef fengið, um að framkvæmdastjórnin sé taki þessari stöðu mjög alvarlega, það skili árangri,“ segir Svandís.