Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sviptu konu frelsi í 4 tíma og hótuðu öllu illu

13.06.2021 - 23:33
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur fimm einstaklingum sem sviptu konu frelsi sínu, hótuðu henni lífláti, beittu hana harkalegu ofbeldi og kúguðu út úr henni peninga í september árið 2018 í Keflavík.

Ákæran var gefin út um miðjan apríl. DV.is greindi fyrst frá en fréttastofa hefur ákæruna einnig undir höndum.  Konan var svipt frelsi sínu í fjórar klukkustundir. Af ákærunni að dæma hin ákærðu þrír karlar og tvær konur. Fimmmenningarnir eru öll ákærð fyrir frelsissviptingu, hótanir og fyrir að þvinga konuna til að láta þeim muni í té.

Tveir eru ákærðir fyrir að ógna henni með verkfærum, hrækja á hana, hafaí hótunum um að brjóta í henni bein og skera af henni fingur, stinga hana og fjölskyldu hennar auk þess að stinga lík fyrrverandi unnusta hennar. Þriðji maðurinn er ákærður fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir um ofbeldi og að ætla að koma konunni í sölu. Hann krafði konuna um 400 þúsund krónur.  

Konurnar tvær eru ákærðar fyrir að hafa kúgað fé af konunni fyrir ólögmæta nauðung og rán. Þær ógnuðu konunni með hníf og hóta að stinga hana, láta nauðga henni, selja hana í vændi. Þá gengu þær í skrokk á henni og skrifuðu orðið rotta á enni hennar auka þess að stela af henni 66° Norður úlpu. 

Smáræði af kókaíni fannst á einum mannanna við yfirheyrslu hjá lögreglunni í Keflavík. Á lögreglustöðinni hafði hann einnig uppi hótanir um að drepa konuna og móður hennar. 
Farið er fram á að hin ákærðu greiði konunni tvær milljónir í skaðabætur auk þess að greiða þóknun vegna réttargæslu
 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV