Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sigþrúður: Hefði viljað sjá fleiri konur á listanum

Mynd með færslu
 Mynd: Sigthrudur Armann - RUV
Sigþrúður Ármann sóttist eftir þriðja sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins en hafnaði í sjötta sæti. Hún segist fyrst og fremst vera þakklát eftir gærdaginn en hefði viljað sjá hlut kvenna betri í prófkjörinu.

„Ég fann það strax þegar ég bauð mig fram að ég var að fá stuðning frá fólki úr öllum áttum og frá fólki á ólíkum aldri og er ég afskaplega þakklát fyrir það. Svo fékk ég líka mjög góða kosningu í þriðja sætið. Það er ljóst að kjósendur vildu sjá mig ofarlega á lista og fyrir það er ég ofsalega þakklát, “segir Sigþrúður. 

Erfitt fyrir nýtt fólk að koma inn

Sigþrúður segir að erfitt sé fyrir nýtt fólk að koma inn í prófkjör því oft vilji verða þannig að sitjandi þingmenn raði sér í efstu sætin. Hún segir jafnframt að stutt hafi verið á milli framboðsfrests og prófkjörs.

„Ég er ekki frá því að ég hefði náð enn betri árangri ef ég hefði haft aðeins lengri tíma,“ segir Sigþrúður. 

Ekki ánægð með hlut kvenna í prófkjörinu

Sigþrúður hefði viljað sjá fleiri konur á listanum, það hefði styrkt listann.  Það sé mikilvægt að konur jafnt sem karlar sitji í efstu sætum á framboðslistum hvers stjórnmálaflokks segir hún.