Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kjörsókn Finna ekki verið verri síðan 1950

13.06.2021 - 22:20
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot úr myndbandi EBU
Finnar gengu til sveitarstjórnarkosninga í dag en upphaflega stóð til að halda kosningarnar þann 18.apríl síðastliðinn. Þeim var þá frestað vegna stöðunnar í kórónuveirufaraldrinum á þeim tíma. Kjörsókn var 55% í Finnlandi en hún hefur ekki verið verri síðan árið 1950.

Finnski Samstöðuflokkurinn hlaut mest fylgi í fjórða skiptið í röð eða um tuttugu og tvö prósent. Flokkur Sósialdemókrata, finnski Miðflokkurinn og Vinstriflokkur Finna sem allir sátu í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili misstu allir fylgi. Sanna Marin, formaður sósialdemókrata og forsætisráðherra Finnlands segir þetta mikil vonbrigði. 

Flokkurinn Sannir Finnar jók fylgi sitt um tæplega 6% frá síðustu kosningum sem er jafnframt mesta aukning í kosningunum í ár.

Finnska ríkisútvarpið, YLE, segir meðal stærri verkefna komandi kjörtímabils vera annars vegar  að bregðast við hraðri fjölgun íbúa í Helsinki, höfuðborg Finnlands og hins vegar að tryggja að smærri bæjarfélög á landsbyggðinni haldi velli þrátt fyrir að íbúar leiti til höfuðborgarinnar í auknum mæli.