Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hætta á að hraun flæði yfir á fleiri stöðum

Mynd: Landhelgisgæsla Islands / RUV
Lögreglan á Suðurnesjum, í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, hefur ákveðið að loka svæðinu við gosstöðvarnar í dag þar sem hraun hefur runnið yfir hluta af gönguleið A. Þetta er gert af öryggisástæðum. Rögnvaldur Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, segir að hætta sé á því að hraun úr Geldingadölum flæði yfir í Nátthaga á fleiri stöðum.

Rögnvaldur segir að verið sé að endurmeta aðstæður og ákveða hvað gera skuli í framhaldinu. Hann segir jafnframt að verið sé að vinna með útfærslu af gönguleið B og lagfæra hana í svipað horf og gönguleið A. Mögulegt sé að hraun flæði niður í Nátthagakrika en þar liggja gönguleiðirnar tvær. „Það er lokað í dag á meðan það er verið að endurmeta aðstæður og sjá hvað er best að gera í framhaldinu. Það er hætta á því að flæði yfir þarna yfir og komi niður í Nátthagakrika þar sem gönguleið A og gönguleið B hafa skipst, þannig að það er semsagt verið að skoða algjöra tilfærslu á gönguleið B eða aðkomu að henni,“ segir Rögnvaldur.