Gáfnaljósin hennar Veru Illugadóttur

Á mánudag hefst þátturinn Gáfnaljósið, spurningaþáttur í umsjón Veru Illugadóttur á Rás 1. Ætlunin með þáttunum er að finna gáfnaljós Íslands og taka átta keppendur þátt.
 Mynd: Gáfnaljósið - RÚV

Gáfnaljósin hennar Veru Illugadóttur

13.06.2021 - 14:31

Höfundar

Gáfnaljós eigast við í nýjum spurningaþáttum í umsjón Veru Illugadóttur á Rás 1.

Spurningaþátturinn Gáfnaljósið hefur göngu sína á Rás 1 mánudaginn 14. júní. Þetta er alvöru spurningakeppni þar sem keppendum verður ekki létt lífið, enda markmiðið að finna gáfnaljós Íslands. Átta taka þátt þar til aðeins eitt gáfnaljós stendur eftir að lokinni úrslitaviðureign 17. júní.

Gísli Ásgeirsson

Gísli er 66 ára gamall, býr í Hafnarfirði, og segist helst fást við að temja kött og ljúga á samfélagsmiðlum. Hann hefur áður tekið þátt í ýmsum spurningaþáttum og var um tíma í Útsvarinu á RÚV.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Inga Þóra Ingvarsdóttir 

Inga Þóra er 41 árs gömul og býr í Reykjavík. Hún er gamalreyndur þátttakandi í spurningakeppnum. Keppti öll sín menntaskólaár í Gettu betur fyrir Menntaskólann við Hamrahlíð og hefur látið til sín taka í málefnum kvenna í málaflokknum. Meðal annars skrifaði hún meistararitgerð í uppeldis- og menntunarfræði um það hvers vegna stelpur tóku síður þátt í keppninni en strákar. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þórir Steinn Stefánsson 

Þórir Steinn er 28 ára aðstoðarhótelstjóri frá Svalbarðsströnd í Eyjafirði. Hann hefur lengi haft gaman af hvers kyns spurningaleikjum og hefur til að mynda verið fulltrúi MA í Gettu betur og að auki þjálfað í öðrum skólum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Margrét Erla Maack 

Margrét Erla er 37 ára gömul, fjölmiðlakona, magadansmær, danskennari og margt fleira. Hún er bæði vanur spurningahöfundur og þátttakandi í spurningakeppnum. Hún var meðal annars dómari og spurningahöfundur í Gettu betur. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sigurlaugur Ingólfsson 

Sigurlaugur er 39 ára sagnfræðingur sem vinnur (og býr) á Árbæjarsafni. Sigurlaugur er hafsjór af fánýtum fróðleik en hann hefur þjálfað Gettu betur-lið ýmissa skóla í um 20 ár eða frá því að hann keppti sjálfur fyrir hönd Menntaskólans við Sund með góðum árangri. Hann hefur meðal annars þjálfað FG og Tækniskólann svo eitthvað sé nefnt. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Guðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir

Guðbjörg Ríkey er 28 ára alþjóðastjórnmálafræðingur og doktorsnemi í stjórnmálafræði. Hún er með bakgrunn í kínversku og hefur búið í Kína. Hún gerði til að mynda þátt um kínverska menningu og stjórnmál á Rás 1 sem heitir Kínverski draumurinn og hefur unnið sem blaðamaður á Kjarnanum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sigurjón Vilhjálmsson

Sigurjón er 43 ára sérfræðingur í upplýsingatækni hjá Seðlabanka Íslands. Hann er mjög virkur í vikulegum spurningakeppnum auk þess sem sem hann stýrir reglulega sjálfur slíkum keppnum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hrafnhildur Þórólfsdóttir

Hrafnhildur Þórólfsdóttir er fertug og býr og starfar í Vesturbæ Reykjavíkur sem kennari. Hún er líka söngmenntuð. Hún er bæði vanur þátttakandi í ýmsum spurningakeppnum og stjórnandi. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Gáfnaljósið hefur göngu sína á Rás 1 mánudaginn 14. júní klukkan 14:03. Tveir þættir eru fluttir dag hvern til 17. júní, þegar síðasta gáfnaljósið stendur eftir.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Vera Illugadóttir leitar að gáfnaljósum