Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

80 milljóna króna fundur Norðurskautsráðs

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands, Anthony Blinken og Sergei Lavrov, á fundi í Reykjavík en þeir sækja báður fund Norðurskautsráðsins.
 Mynd: Utanríkisráðuneytið
Kostnaður utanríkisráðuneytisins við fund Norðurskautsráðsins hér á landi í síðasta mánuði verður líklega á bilinu 70-80 milljónir króna.

Af því er reiknað með að kostnaður við öryggisgæslu sé um tíu milljónir króna, en inni í þessum tölum er ekki launa- og aðgerðakostnaður lögreglu. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins var haldinn í Reykjavík dagana 19.- 20. maí og markaði hann endalok tveggja ára formennsku Íslands í ráðinu. Utanríkisráðherrar þeirra átta ríkja sem aðild eiga að ráðinu komu allir til sameiginlegs fundar í Hörpu.

Auk þess funduðu Anthony Blinken og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands í einrúmi, en það var fyrsti fundur ráðherra ríkjanna tveggja frá stjórnarskiptum í Bandaríkjunum í janúar.

Gert var ráð fyrir sérstakri fjárveitingu á fjármálaáætlun til að standa straum af kostnaði vð formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, að því er segir í svari ráðuneytisins. Heildarfjárhæðin var 318 milljónir króna og rúmur helmingur hennar fór í fundarkostnað, þ.e. leigu og uppsetningu á aðstöðu, túlkaþjónustu, tækniaðstoð, risnu og annan tilfallandi kostnað.

Allt útlit er fyrir að kostnaður verði innan þeirra marka.