Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vitaleið opnuð í dag

12.06.2021 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Markadsstofa Sudurlands - RUV
Ný ferðaleið, svokölluð Vitaleið, var formlega opnuð við hátíðlega athöfn á Eyrarbakka í dag. Upphaflega var áætlað að opna Vitaleiðina í ágúst í fyrra en fresta þurfti opnunni vegna samkomutakmarkana. Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar, segir leiðina fjölbreytta og gleðst yfir opnuninni en þetta var í þriðja skiptið sem stefnt var að því að halda hátíðina.

Vitaleiðin er tæplega 50 kílómetra leið sem liggur frá Selvogsvita í vestri að Knarrarósvita í austri. Leiðin býður upp á fjölbreytta ferðamáta meðfram strandlínunni, heimsóknir inn í þrjú þorp og þrjá vita en af þeim dregur leiðin nafn sitt. Gísli segir leiðina skemmtilega og fjölbreytta og bjóða heimamenn ferðamenn, erlenda og innlenda, velkomna. Leiðin bjóði meðal annars upp á svartar sandstrendur, hraunfjörur og grjótgarða. 

Markaðsstofa Suðurlands, í samstarfi við sveitarfélögin Árborg og Ölfus, stóð fyrir formlegri opnun á Eyrarbakka í dag. Þar klipptu Gísli og Gestur Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar sveitarfélagsins Ölfuss, á borða við góðar undirtektir. Þetta var þriðja tilraun til að Gísli segir að mætingin hafi verið góð og að vel hafi tekist til. Gestir hafi gætt sér á súkkulaðiköku og verið kátir.