Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Strætó hættur að keyra að Laugum í Reykjadal

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Nemendur í Framhaldsskólanum á Laugum í Reykjadal þurfa að ganga um þriggja kílómetra leið vilji þeir taka strætó til Húsavíkur eða Akureyrar eftir að hætt var að keyra inn að Laugum. Framhaldsskólinn er heimavistarskóli og því fara nemendurnir oft heim til sín í frí og nota margir til þess þjónustu Strætó.

Útboð um áramótin

Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari Framhaldsskólans á Laugum, er ósáttur við að strætó stoppi ekki lengur í námunda við skólann þannig að nemendur geti haft greiðan aðgang að þjónustunni.

Strætó bauð um áramót út rekstur á akstursleiðinni milli Akureyrar og Húsavíkur. Þar á milli eru farnar þrjár ferðir á dag. SBA Norðurleið bauð lægst og tók við akstrinum. Þá hættu vagnar Strætó að fara inn að Laugum og stoppa nú í um tveggja og hálfs kílómetra fjarlægð frá þorpinu. Nemendur í Framhaldsskólanum á Laugum þurfa því að ganga um þriggja kílómetra leið að biðstöðinni sem er við þjóðveg eitt.

Varasöm biðstöð

Sigurbjörn Árni er afar óánægður með þessa breytingu hjá Stætó og telur að skólinn sé jafnvel sá eini á landinu sem sé utan leiðar almenningssamgangna. Nýja biðstöðin, sem nú er við Einarsstaði, sé á þannig stað að það sé ekki gott að bíða þar eftir strætó. Þar sé ekkert skýli til að verjast veðri og vindum.  Þá sé ekki hægt að moka þannig að vagninn komist út í kant og því sé jafnvel hættulegt að stoppa þar.

Þjónustan skerðist

Fyrir nokkrum árum tókst að fá Strætó til að setja biðstöð við Laugar og hafi Þingeyjarsveit borgað fyrir það. Sigurbjörn Árni furðar sig á því að hægt sé að bjóða út strætóþjónustu og taka síðan út biðstöðvar og leiðir. Hann segist skilja að það muni um þennan krók en bendir á að það séu ekki nema um 2,5 kílómetrar að Dalakofanum, þar sem biðstöðin var áður. Hann telur jafnframt að með því að fara inn að Laugum komi strætó inn í þéttbýli og muni þá fleiri farþegar nýta þjónustuna.