Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ríkisstjóri Texas boðar byggingu landamæramúrs

12.06.2021 - 04:53
epa08305184 Texas Governor Greg Abbott holds a press conference to discuss new measures after the first confirmed death in Texas, in Arlington, Texas, USA, 18 March 2020. The first confirmed COVID-19 coronavirus death in Texas occurred a day earlier in Arlington.  EPA-EFE/LARRY W. SMITH
 Mynd: epa
Ríkisstjóri Texas, Repúblikaninn Greg Abbott, fullyrti á fimmtudag að Texasríki muni láta reisa múr á landamærum Texas og Mexíkós. Abbott fór ekki út í nánari útlistanir en sagði frekari upplýsingar væntanlegar innan skamms. Frá þessu er greint á vef bandaríska blaðsins The Texas Tribune. Þar segir að tilkynning ríkisstjórans sé nýjasta útspilið í viðvarandi reipdrætti Abbots og ríkisstjórnar Demókratans Joes Bidens.

Ríkisstjórinn lýsti fyrirætlunum sínum um byggingu landamæramúrsins á blaðamannafundi í borginni Del Rio. Þar kynnti hann fjölda fyrirhugaðra aðgerða til að tryggja landamærin, eftir að ríkisþing Texas samþykkti fjárveitingu upp á milljarð Bandaríkjadala, um 120 milljarða íslenskra króna, til málaflokksins.

Í frétt Texas Tribune segir að Abbott hafi lýst því yfir að múr yrði reistur á landamærunum en hvorki hvar né hvenær yrði hafist handa heldur boðað kynningu á áætluninni í næstu viku.

Joe Biden lýsti því yfir á fyrsta degi sínum í embætti að hann hygðist stöðva byggingu múrsins á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkós og gaf út tilskipun sama dag um tímabundna stöðvun verksins. Rúmum þremur mánuðum síðar afturkallaði hann allar fjárveitingar til múrbyggingarinnar og sló framkvæmdina af fyrir fullt og allt.