Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hvalur gleypti veiðimann en tókst þó ekki að éta hann

12.06.2021 - 07:55
epa06920619 A humpback whale jumps out to sea at the Abrolhos archipelago, located on the southern coast of the state of Bahia, Brazil, 25 July 2018 (issued 31 July 2018). About 20,000 humpback whales travel between July and November to the temperate and clear waters of the Brazilian coast, specifically the Abrolhos archipelago, the largest reproductive cradle at the South Atlantic Ocean and where cetaceans attracts thousands of tourists every year.  EPA-EFE/JOEDSON ALVES
 Mynd: epa
Bandaríski humarveiðimaðurinn Michael Packard þakkar sínum sæla fyrir að ekki fór verr þegar hann lenti bókstaflega í kjafti hvals í gærmorgun og slapp með skrekkinn. Packard áætlar að hann hafi verið um hálfa mínútu í kjafti hvalsins áður en honum var spýtt út og bjargað af félaga sínum.

Packard, sem er 56 ára gamall, hefur það að atvinnu að kafa eftir humri undan ströndum Cape Cod, eða Þorskhöfða, í Massachusetts.  Hann var einmitt við þá iðju í gærmorgun, líklega á um það bil 14 metra dýpi, þegar hann fann fyrir „þessum ógurlega hnykk og allt varð svart," eins og hann sagði í sjónvarpsviðtali skömmu eftir að hann var útskrifaður af sjúkrahúsi í gær.

Fann hvorki fyrir tönnum né sársauka

Hann hélt fyrst að hann hefð orðið fyrir hákarlsárás, sem er ekki óþekkt á þessum slóðum, en áttaði sig fljótt á því að það gæti varla verið því hann fann hvorki fyrir tönnum né sársauka.

„Þá áttaði ég mig á því, guð minn góður, ég er í hvalskjafti ... og hann er að reyna að kyngja mér," sagði Packard. „Og ég hugsaði, allt í lagi, það er komið að því - ég er loksins - ég er að fara að deyja," og hugurinn hvarflaði til konunnar og barnanna.

Hálf mínúta í kjafti hvals

Humarkafarinn telur að hann hafi verið um þrjátíu sekúndur í hvalskjaftinum en þar sem hann var enn með köfunarbúnaðinn ólaskaðan á sínum stað gat hann andað vandræðalaust. Hnúfubakar eru skíðishvalir og þegar þessi komst að því að hann hafði gleypt meira en hann réði við að kyngja synti hann upp á yfirborðið, hristi ógnarstórt höfuðið og spýtti Packard út úr sér.

Félagi hans sem þar var á útkíkkinu eftir honum á bát þeirra bjargaði honum óðara um borð og sigldi með hann í land. Packard slapp nánast alveg ómeiddur frá þessum óþægilega nánu kynnum sínum af hnúfubaknum, sem er þekktur fyrir allt annað en árásargirni og lifir helst á smáfiski.

Líklega algjört slys

Haft er eftir Charles „Stormy" Mayo, hvalasérfræðingi í Provincetown í Massachusetts, að mannfólk verði afar sjaldan fyrir barðinu á hnúfubökum. Líklegast sé að hvalurinn hafi gleypt humarkafarann af slysni þegar hann opnaði ægimikinn hvoftinn til að gleyma torfu af smáfiski, líklega sandsíli. Það kemur ágætlega heim og saman við matarvenjur hnúfubaks, sem á vef Náttúrufræðistofnunar er lýst svo:

Fæða hnúfubaks er fjölbreytt og mismunandi eftir svæðum og árstíma. Hér við land nærist hann meðal annars á loðnu og ljósátu og notast við gleypiaðferð við fæðunám; opnar skoltinn og syndir inn í þéttan hóp af bráð svo munnholið fyllist en lokar svo skoltinum og þrýstir sjónum út milli skíðanna þannig að fæðan verður eftir.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV