Tvö minnisblöð frá Þórólfi á fundi ríkisstjórnarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Ríkisstjórnin ræðir á fundi sínum í dag tvö minnisblöð frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni. Annað snýr að aðgerðum á landamærunum en hitt að samkomutakmörkunum innanlands. Þetta staðfestir heilbrigðisráðuneytið í svari við fyrirspurn fréttastofu. Reglugerð varðandi landamærin fellur úr gildi 15. júní og reglugerð varðandi samkomutakmarkanir innanlands 16. júní.

Verulega var dregið úr samkomutakmörkunum síðast. Grímuskylda var að mestu leyti felld niður og 150 máttu koma saman nema á sitjandi viðburðum þar sem 300 mans máttu vera í hverju sóttvarnahólfi.   

Þórólfur Guðnason sagði í samtali við fréttastofu í gær að áfram yrði að fara hægt og örugglega í allar afléttingar. „Við erum með mjög rúmar aðgerðir í gildi, rýmri en flestar aðrar þjóðir. Við erum á mjög góðum stað og eigum að halda því áfram.“ Enginn hefur greinst utan sóttkvíar síðustu sex daga.

Aðgerðirnar á landamærunum falla úr gildi 15. júní en þá hafði verið stefnt að því að 60 prósent þjóðarinnar hefðu fengið að minnsta kosti einn bóluefnaskammt.  Meðal þess sem til stendur að skoða er að aflétta sýnatöku á landamærum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV