Þjóðgarðs- og stjórnarskrármál skellur fyrir Katrínu

11.06.2021 - 08:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor segir það skell fyrir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að hálendisþjóðgarðsmálið skuli ekki hafa farið í gegnum þingið sem og óvissan sem ríkir um stjórnarskrárfrumvörp hennar. Fróðlegt verði að sjá áhrifin á stjórnarmyndunarviðræður eftir kosningar.

Ljóst er að frumvarp umhverfisráðherra um þjóðgarð á hálendinu verður ekki afgreitt fyrir þinglok og óvissa ríkir um frumvörp forsætisráðherra um heildarendurskoðun á stjórnarskránni.

„Ég held að þetta hljóti að teljast skellur fyrir hana. Hálendisþjóðgarðurinn er atriði sem var í stjórnarsáttmálanum og síðan virðist hafa verið eining í ríkisstjórninni um þessa málsmeðferð í stjórnarskrármálinu sem að Katrín hannaði, þannig að þetta hljóta að minnsta kosti að vera veruleg vonbrigði fyrir hana.,“ sagði Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði á Morgunvaktinni á Rás 1.

Ólafur segir að ríkisstjórnin hafi verið stofnuð utan um stöðugleika og það hafi tekist vel og ríkisstjórnin sé fyrsta þriggja flokka ríkisstjórnin sem nær að sitja heilt kjörtímabil, verði hún við völd fram að kosningum.

„Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig Vinstri græn taka því að hálendisfrumvarpið fari ekki í gegn og kannski sérstaklega ef það verður ekki hægt að taka stjórnarskrárfrumvörp forsætisráðherrans  fyrst og fremst vegna andstöðu hinna stjórnarflokkanna, annars eða beggja.  Spurningin er hvort að það hafi áhrif á vilja Vinstri grænna og Katrínar Jakobsdóttur eftir kosningar þegar kemur að því að velja þarf stjórnarmynstur.“

 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV