Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þeir sem hafa afþakkað bóluefni fá bólusetningu í ágúst

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Stjórnvöld gera ráð fyrir að þann 25. júní hafi allir sem til stendur að bólusetja fengið boð um bólusetningu. Í ágúst stendur til að bjóða þeim bólusetningu sem ekki hafa nýtt sér fyrri boðun. Stjórnvöld telja ekki þörf á fimmta bóluefninu frá CureVac miðað við framgang bólusetningar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði heilbrigðisráðherra sem kynnt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Alls hafa um 215 þúsund fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni, sem eru um 76,6 prósent þeirra sem áætlað er að bólusetja ef með eru taldir þeir sem eru með mótefni. Heilbrigðisráðherra er bjartsýnn á að þann 25. júní, sem er eftir hálfan mánuð, verði allir sem til stendur að bólusetja búnir að fá boð í bólusetningu.  

Í minnisblaðinu kemur fram að ekki liggi fyrir hvort og þá hvenær krakkar á aldrinum 12 til 15 ára verði bólusettir. Í minnisblaðinu kemur þó fram að börnum á þessum aldri sem hafa undirliggjandi sjúkdóma verði boðin bólusetning í þessum mánuði. 

Ráðherra segir að notað verði bóluefni frá Pfizer, Moderna og AstraZeneca í næsta mánuði. Það síðastnefnda verður þó aðeins nýtt í seinni sprautuna. Sá mánuður verður sögulegur því ráðuneytið segir stefnt að því fullbólusetja alla sem til stendur að bólusetja. 

Ráðuneytið hefur fengið staðfesta afhendingaráætlun frá Pfizer sem ætlar að afhenda 70 þúsund skammta í næsta mánuði. Í þeim mánuði stendur einnig til að endurgreiða þá 16 þúsund skammta af bóluefni AstraZeneca sem Ísland fékk að láni frá Noregi.

Fram kom á blaðamannafundi sænskra stjórnvalda í morgun að Svíar hefðu lánað Íslendingum 24 þúsund skammta af bóluefni Janssen, þeir skammtar eru að mestu leyti komnir og búið er að nota tæpan helming þeirra.

Í ágúst fer síðan að hægjast aðeins á bólusetningum hér á landi og þá verða aðeins notuð bóluefnin frá Pfizer og Moderna. Í þeim mánuði stendur til að bjóða þeim bólusetningu sem ekki hafa nýtt sér fyrri boðun. Ráðuneytið segir að þar sé verið að koma til móts við þá sem hafa afþakkað tiltekið bóluefni og óskað eftir annarri tegund.

Ráðuneytið reiknar ekki með að þörf verði á fimmta bóluefninu, CureVac, en að leiða megi líkum að því að áfram þurfi að bólusetja gegn COVID-19. Íslandi standa til boða 740 þúsund skammtar af bóluefni Pfizer, í gegnum samning Evrópusambandsins, sem verða afhentir næstu tvö ár.
 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV