Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Spá því að verðbólga hjaðni smám saman

11.06.2021 - 14:06
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Hagfræðideild Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,3 prósent í júní og að tólf mánaða verðbólga hjaðni úr 4,4 prósentum í 4,3 prósent.

Samkvæmt spánni var toppi verðbólgunnar náð í apríl og búast má við að dragi hægt og rólega úr henni á næstu mánuðum. Hagfræðideildin telur að verðbólga verði við 2,5 prósenta markmið Seðlabankans í ágúst á næsta ári.

Hækkandi íbúðaverð hefur átt stærstan þátt í verðbólgunni síðustu mánuði en reiknuð húsaleiga hefur hækkað um 5,3 prósent frá áramótum og hækkaði um 1,6 prósent milli mánaða í maí. Hagfræðideildin telur að íbúðaverð haldi áram að hækka en þó hægar en verið hefur. „Enn er mikil eftirspurnarspenna á markaðnum sem við teljum að muni halda áfram á næstu mánuðum. Við gerum þó ráð fyrir að hægja taki á hækkunartaktinum þegar líður á árið vegna hækkunar á vöxtum sem og aukins framboðs íbúða á markaði,“ segir í spánni.

Ferðir og flutningar vega næstmest í hækkun vísitölunnar í júní. Búist er við að flugfargjöld hækki um 4,2 prósent milli mánaða en erfitt hefur reynst að spá um verðbreytingar á ferðum og flutningum vegna faraldursins. „ Við væntum þess að auðveldara verði að ráða í þennan lið á næstunni þegar líf fer að glæðast á flugmarkaðnum á ný og ferðalög á milli landa að færast í eðlilegra horf,“ segir í spánni. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV