Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sigurður er sjómaður

Mynd með færslu
 Mynd: Record Records - Kappróður

Sigurður er sjómaður

11.06.2021 - 16:21

Höfundar

Sigurður Guðmundusson semur og syngur bæði texta og lög á plötunni Kappróður. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Þið fyrirgefið mér hnyttnina í fyrirsögninni sem ætlað er að binda saman þau temu sem renna hér í gegn frá fyrstu sekúndu til hinnar síðustu. Sigurður Guðmundsson hefur verið einn af okkar helstu söngvurum undanfarna áratugi. Hann er reyndar ekki sannur Vesturbæingur heldur ólst hann upp í Innri-Njarðvík. Þessari vísun í slagara Lúdó og Stefáns er ætlað að gera tvennt, vísa kerknislega til titilsins á plötu Sigurðar en undirstrika um leið hversu afskaplega íslensk þessi mjög svo prýðilega plata er. Enda heitir upphafslagið Kartöflur. Sigurður naut liðsinnis einvalaliðs tónlistarmanna við gerð plötunnar. Kristinn Snær Agnarsson spilar á trommur, Þorsteinn Einarsson á rafgítar, Ásgeir Trausti Einarsson á kassagítar, Tómas Jónsson á píanó, rafpíanó og hljóðgervla, Andri Ólafsson og Steingrímur Teague syngja bakraddir en sjálfur leikur Sigurður á bassa, gítara auk þess að syngja. Þá leikur Samúel Jón Samúelsson á básúnu og útsetur brassparta, Óskar Guðjónsson leikur á saxófóna og Kjartan Hákonarson sér um trompetleik. Upptökur fóru að mestu leyti fram í Hljóðrita undir stjórn Guðmundar Kristins Jónssonar sem einnig sá um hljóðblöndun og hljómjöfnun ásamt Sigurði sjálfum.

Hugmyndin um gamla Ísland hefur leikið um plötur Sigurðar á misöflugan hátt. Henni má finna stað í jólaplötu hans og Memfismafíunnar og hljómplötu Góss en þó sérstaklega á hinni einstöku Oft spurði ég mömmu (2008) þar sem lummurnar og randalínurnar bókstaflega runnu úr hátölurunum. Þessi plata hér er alls ekki reyrð á sama hátt, en samt, þessar áherslur eru á sveimi þó að útfærslan sé önnur. Hvernig þá, spyrðu lesandi góður. Nú, fyrir það fyrsta þá hefur Sigurður átt ríkan þátt í að búa til dægurtónlist hins íslenska almúgamanns í gegnum fyrirbæri eins og Baggalút, Memfismafíuna, Hjálma og fleira. Kappróður tekur eitthvað frá öllu þessu en í mismiklum mæli þó. Tónlistin er þannig ljúf og þekkileg, einhvers konar popprokk sem er skreytt með smekklegum sálar- og fönklitum. Heildarmyndin er rólyndisleg, jafnvel angurvær á köflum. Titillagið er ágætt dæmi um þetta, rúllar naumhyggjulega áfram, þægilegt gítarhringl sækir að aftur og aftur og vaggar manni. Lokalagið, Nóttin langa, er einstaklega flott. Stemningin í því tónar algerlega við titilinn; harmræn og letileg og líkt og í laginu Kappróður er framvindan naumhyggjuleg og svöl, endurtekið stef út í gegn meira og minna. Sigurður er orðsins maður og frábært að fá alla þessa texta hans. „Ég skyldi slaka á keflinu, rekja upp þráðinn, sauminn sem heldur oss saman. / Og ígrunda betrumbót. / Því allt rennur þetta á endanum undir þetta arma rjóður.“ segir í Betrumbót, mjög „SG“-legar línur allar saman!

Söngrödd Sigurðar er sérkapítuli. Mild og vinaleg en nægilega sérkennileg til að halda athygli nú eins og alltaf. Sigurður er frábær söngvari, svo það sé sagt. Spilamennska á plötunni er auðvitað í yfirdrifnum gæðum, ég þarf ekki að fjölyrða um þann þátt. Jafnvægið er gott í lagasmíðum Sigurðar, þær eru til þess að gera einfaldar en aldrei ódýrar. Hann hagar sér eins og besti kántrílagasmiður. Þrjú, fjögur grip, engar krúsidúllur heldur miklu fremur kjarngóðar, áreiðanlegar smíðar sem hafa verið heflaðar til af kunnáttumanni sem er fyrir löngu orðinn völundur í sínum bransa. Sannfærandi verk frá sjóuðum manni.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Sigurður Guðmundsson - Kappróður