Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Örfáir metrar í að Geldingadalir fyllist

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Aðeins eru örfáir metrar í að Geldingadalir fyllist og það fari að flæða úr þeim. Lengra sé í að Meradalir fyllist en hraunið hafi náð um tíu metra þykkt að jafnaði og þekur þar dalinn allan. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, í viðtali við fréttastofu í dag.

Hann segir jafnframt að töluvert sé í að hraun taki að renna yfir Suðurstrandarveginn frá Nátthaga. 

 „Það fer eftir því hvernig málin þróast með flutningskerfi í hrauninu, sérstaklega í áttina að Nátthaga. Ef það helst einangrað og ef helluhraunsframleiðslan heldur áfram þá gætum við verið að tala um einhverjar vikur til mánuði,“ segir Þorvaldur. Ef gosrásirnar eru opnar og hraunið að tapa hita þá gæti mun lengri tími hins vegar liðið. 

Greint var frá því fyrr í dag að strókavirkni hefði aukist aftur í eldgosinu við Fagradalsfjall eftir að verulega dró úr henni í gær. Hraunrennsli er enn stöðugt og virðist renna nokkuð jafnt inn í Meradali, Geldingadali og niður í Nátthaga.