Ólíklegt að rekja megi 4 af 5 dauðsföllum til bóluefnis

11.06.2021 - 12:06
epa09079043 A health worker holds a vial of COVID-19 vaccine developed by AstraZeneca at a vaccination center of the Vietnam Vaccine Joint Stock Company (VNVC), in Hanoi, Vietnam 17 March 2021. Major European countries have temporarily suspended the use of the AstraZeneca jab following reports of side effects such as blood clots.  EPA-EFE/LUONG THAI LINH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Óháðir sérfræðingar í lyflækningum telja ólíklegt að rekja megi fjögur af þeim dauðsföllum sem þeir skoðuðu til bólusetningar. Eitt andlát er flokkað sem ólíklegt til mögulegt. Í nær öllum þeim tilvikum sem skoðuð voru var hægt að tengja andlát eða blóðtappa undirliggjandi sjúkdómi eða áhættuþáttum. Einn greindist með svokallaðan VITT-sjúkdóm sem átti stóran þátt í því að Norðmenn og Danir hættu að nota bóluefni AstraZeneca.

Þetta kemur fram á vef Lyfjastofnunar Íslands.

Sérfræðingarnir voru fengnir til að rannsaka gaumgæfilega myndun blóðtappa og andlát sem tilkynnt hafa verið til Lyfjastofnunar Íslands eftir bólusetningu gegn COVID-19.  Rannsókn þeirra náði til allra þeirra bóluefna sem notuð hafa verið hér á landi; Pfizer, AstraZeneca, Moderna og Janssen.

Skoðaðar voru fimm tilkynningar um andlát og fimm tilkynningar um blóðtappa.

Sérfræðingarnir segja að í einu tilfelli hafi tengsl milli aukaverkana og veikinda verið metin líkleg. Þar var viðkomandi bólusettur með bóluefni AstraZeneca og fékk líklega það sem kallast VITT. „Veikindin eru afar sjaldgæf aukaverkun Astra Zeneca og Janssen bóluefna og eru talin sjást hjá einum af um 100.000 bólusettum.“  VITT- veikindin áttu stóran þátt í því að bæði Norðmenn og Danir hættu að nota AstraZeneca.

Sérfræðingarnir benda á að nær 60 þúsund hafi fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni AstraZenca og 26 þúsund eru fullbólusett með bóluefni Janssen.

Fram kemur á vef Lyfjastofnunar að í fjórum af fimm tilkynningum um andlát sé það mat sérfræðinga að ólíklegt sé að bólusetning hafi leitt til andláts. Eitt andlát sé flokkað sem ólíklegt til mögulegt.

Í þremur af fimm tilkynningum um aukaverkanir segja sérfræðingarnir að ólíklegt til mögulegt sé að veikindi megi rekja til bólusetningar. Möguleg tengsl séu milli bólusetningar í einu tilfelli og líkleg tengsl í einni tilkynningu um alvarlegar aukaverkanir. „Í nær öllum tilvikum var hægt að tengja andlát eða blóðtappa undirliggjandi sjúkdómi eða áhættuþáttum.“

Fram kemur á vef Lyfjastofnunar að niðurstaða hinna óháðu sérfræðinga kalli ekki á breytingu á núverandi fyrirkomulagi bólusetningar gegn COVID-19 hér á landi.

Þetta er í annað sinn sem óháðir sérfræðingar eru fengnir til að meta hugsanleg tengsl veikinda og bólusetningar við COVID-19. 

Niðurstaðan úr fyrri rannsókninni var að í fjórum af fimm dauðsföllum var talið ólíklegt að einhver orsakatengsl væru á milli bólusetningar og andláts. Í einu var ekki hægt að útiloka tengsl með vissu „þó líklega hefði andlátið verið af völdum undirliggjandi ástands.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV