Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gengu yfir nýstorknað hraun

11.06.2021 - 13:37
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot úr vefmyndavél Mbl.i - Mbl.is
Einhverjir hafa rekið upp stór augu í hádeginu þegar sást til hóps ferðamanna ganga yfir nýstorknað hraun í Geldingadölum til að komast að útsýnisstaðnum Gónhóli.

Atvikið sást vel á vefmyndavél mbl.is, en þar má sjá hóp karlmanna sigri hrósandi yfir því að vera komnir svo nálægt upptökum gossins. Gónhóll var vinsæll útsýnisstaður í upphafi gossins, en svæðinu var lokað eftir að hraun tók að renna yfir gönguleiðina.

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, segir í samtali við fréttastofu að þessi „hálfvitagangur“ slái öll met. Lögregla og björgunarsveitarmenn eru á leið að gosslóðum og stendur til að loka svæðinu með meira afgerandi hætti.

Hingað til hafa yfirvöld látið viðvörunarskilti nægja, en Bogi segir ljóst að nauðsynlegt sé að grípa til harðari aðgerða. „Ég hélt nú að það myndi nægja, en nú spyr maður bara hvað næst? Sundskýla og hoppa í gíginn?“ spyr Bogi.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV