Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

G7-ríkin hyggjast gefa minnst milljarð bóluefnaskammta

epa09259842 A man receives a shot of a COVID-19 vaccine during the vaccination drive for sports persons, in Bangalore, India, 10 June 2021. India reported 94,052 new Covid-19 cases and 6,148 coronavirus COVID19 deaths in the last 24 hours and this is the highest number of deaths that the country has seen in a day since the start of the pandemic. The jump in deaths comes after Bihar revised its toll on 09 June, adding 3,951 previously uncounted deaths to its tally.  EPA-EFE/JAGADEESH NV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sjö af stærstu iðnveldum heims, sem saman mynda G7-ríkjahópinn, munu samanlagt gefa minnst einn milljarð bóluefnaskammta til dreifingar í efnaminni ríkjum jarðarkringlunnar áður en næsta ár er úti. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og gestgjafi G7-ráðstefnunnar í ár, lýsti þessu yfir í gær, fimmtudag.

Bandaríkin gefa hálfan milljarð skammta

Mjög hefur verið þrýst á Bandaríkin, Evrópusambandið og önnur stöndug iðnríki að leggja mun meira af mörkum til alþjóðlegs bóluefnasamstarfs en gert hefur verið. Joe Biden, Bandaríkjaforseti, staðfesti í gær að Bandaríkin hygðust kaupa samtals 500 milljónir bóluefnaskammta af Pfizer og gefa til fátækari ríkja heims á þessu ári og því næsta, án nokkurra skilyrða eða skuldbindinga af hálfu þeirra sem þiggja. Sagðist hann fullviss um að önnur G7-ríki myndu gera hið sama.

Segir hin G7-ríkin fylgja fordæmi Bandaríkjanna

Johnson lýsti því svo yfir sama dag að Bretar hygðust kaupa minnst 100 milljónir skammta í sama tilgangi og koma þeim þangað sem þörfin er mest á næstu átján mánuðum. Í yfirlýsingu frá skrifstofu forsætisráðuneytisins segir að búist sé við að hin ríkin fimm í G7-hópnum taki fullan þátt í átakinu og að á ráðstefnunni, sem hefst í dag, verði tilkynnt um kaup og dreifingu á minnst einum milljarði bóluefnaskammta til efnaminni ríkja heims.  Hin G7-ríkin fimm eru Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Kanada og Japan.

Áður hafði Evrópusambandið tilkynnt að það hygðist leggja minnst 100 milljónir skammta af bóluefni til alþjóðlega bóluefnasamstarfsins COVAX strax á þessu ári. Þar af gefa Þýskaland og Frakkland 30 milljónir skammta hvort um sig.

Búið er að gefa 2,24 milljarða skammta af bóluefni í heiminum öllum þegar þessi frétt er skrifuð, samkvæmt gögnum Johns Hopkins háskólans í Maryland, sem fylgist grannt með allri COVID-19 tölfræði um veröld víða. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV