Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fjöldi barna missir talmeinafræðing vegna reynslukröfu

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Yfir 60 börn, sem hafa fengið þjónustu hjá tveimur talmeinafræðingum á Akureyri, þurfa að fara aftur á biðlista vegna þess að talmeinafræðingarnir mega ekki sinna þeim áfram. Þeir hafi lokið námi og þurfa að ná sér í tveggja ára starfsreynslu áður en reglur sjúkratrygginga gera þeim kleift að starfa áfram á stofunni.

Í fréttum RÚV sagði móðir sjö ára stúlku á Egilsstöðum, frá því að hún þyrfti að hætta að fara með dóttur sína til talmeinafræðings á Akureyri og ástæðan kemur á óvart. Talmeinafræðingurinn hefur lokið handleiðslutímabili með reyndari talmeinafræðingi og hefur þar með lokið námi og fær fullgildingu. Reglur Sjúkratrygginga krefjast þess hins vegar að eftir nám nái talmeinafræðingar sér í tveggja ára starfsreynslu áður en til greina kemur að gera við þá samning um greiðsluþátttöku ríkisins. 

Talmeinafræðingurinn heitir Brynhildur Þöll Steinarsdóttir. Hún segir að hún og annar talmeinafræðingur á sömu stofu sjái nú fram á atvinnuleysi eftir útskrift og óvissu um hvernig ná skuli í starfsreynsluna.

„Það yrði alveg draumastaða fyrir okkur að geta haldið áfram á stofunni þar sem nú þegar eru mjög langir biðlistar. En við komumst þó ekki á samning sjálfar hjá Sjúkratryggingum Íslands vegna ákvæðis í samningnum þar sem er krafist tveggja ára starfsreynslu til þess að komast á samning.

Og hvar eigið þið þá að ná í þessa starfsreynslu?

Það er nefnilega stór spurning og sérstaklega úti á landi. Það er líklegt að við þurfum þá að flytja eitthvert en við vitum ekki alveg hvernig við eigum að leysa þennan vanda. Það sem særir mig mest er að tilkynna foreldrum og skjólstæðingum að þau þurfi að öllum líkindum að fara aftur á biðlista því ég hafi ekki tækifæri til að halda áfram að sinna þeim. Og ég hef verið að sinna í kringum 30 skjólstæðingum og samstarfskona mín, sem er líka að ljúka handleiðslu, hefur verið með rétt rúmlega 30 skjólstæðinga. Þannig að þetta eru rúmlega 60 börn sem þurfa að fara aftur á biðlista. Mörg þessara barna eru með mjög alvarleg frávik og mega alls ekki við því að bíða,“ segir Brynhildur Þöll.

Samkvæmt upplýsingum frá Félagi talmeinafræðinga er svipuð staða um allt land og veldur sérstökum vandræðum á landsbyggðinni svo sem í Vestmannaeyjum og á Húsavík. Nýir talmeinafræðingar þurfa að hætta að sinna börnum vegna þess að handleiðslutímabili er lokið. Átján talmeinafræðingar eiga að útskrifast næsta vor og eru í sömu óvissu. Talmeinafræðingar hafa ítrekað rætt við bæði sjúkratryggingar og ráðuneytið og málið hefur verið tekið upp á þingi en ekkert gerist.

„Það er alveg nokkuð ljóst að það þarf að taka þetta ákvæði út úr samningunum svo að við getum haldið áfram að starfa eðlilega og grynnka á þessum löngu biðlistum. Ég get alls ekki séð hvernig það getur verið betra að setja börnin aftur á biðlista, sem nú þegar eru allt of langir, heldur en að leyfa okkur, sem nú þegar þekkjum þau og þeirra vanda, að halda áfram að sinna þeim og sérstaklega með reynda talmeinafræðinga okkur við hlið á stofunni,“ segir Brynhildur Þöll Steinarsdóttir, talmeinafræðingur á Akureyri.